Vélarvana farþegabátur í Jökulfjörðum

Frá björgunaraðgerðum í dag.
Frá björgunaraðgerðum í dag. Ljósmynd/Facebook-síða Gísla Jóns

Útkall á hæsta forgangi barst um hálftvöleytið í dag vegna vélarvana farþegabáts við Maríuhorn á Jökulfjörðum með þrettán farþega um borð.

Nokkrum mínútum síðar lagði björgunarbáturinn Gísli Jóns af stað í sitt fyrsta útkall auk þess sem farþegabáturinn Ingólfur og björgunarbáturinn Kobbi Láka úr Bolungarvík stefndu beint á staðinn, að því er segir á Facebook-síðu björgunarbátsins Gísla Jóns.

Ingólfur var fyrstur á staðinn og dró bátinn frá landi þar til Kobbi kom og tók við. Gísli Jóns tók síðan við drættinum og dró bátinn til hafnar á Ísafirði og voru bátarnir komnir þangað um klukkan 16:30.

Landhelgisgæslan segir í samtali við mbl.is að þyrla hafi verið send vestur en hún þurfti ekkert að aðhafast.

mbl.is