Áskorun að taka við sæti Bandaríkjanna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er í þriggja daga heim­sókn í Genf …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er í þriggja daga heim­sókn í Genf í tengsl­um við júnílotu mann­rétt­indaráðs Sam­einuðu þjóðanna þar sem jafn­rétt­is­mál eru í brenni­depli. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það hafa verið heilmikla áskorun fyrir Ísland að taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í fyrra eftir óvænt brotthvarf Bandaríkjanna. Að hennar mati hefur Íslandi hins vegar tekist að setja mikilvæg mál á dagskrá, svo sem málefni flóttafólks, jafnréttismál og loftslagsmál. 

„Ég tel að það sé ljóst að það er hlustað eftir okkar rödd þegar kemur að þessum málum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is, en hún er í þriggja daga heim­sókn í Genf í tengsl­um við júnílotu mann­rétt­indaráðs Sam­einuðu þjóðanna. 

Í gær fundaði Katrín með Fil­ippo Grandi, fram­kvæmda­stjóra Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR) og Michelle Bachelet, mann­rétt­inda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna (OHCHR). Í dag hóf Katrín daginn á pallborðsumræðum um kynbundið ofbeldi á vinnustöðum þar sem hún hélt inngangserindi, ásamt Bachelet.

„Þar skapaðist heilmikið umræða og það er verið að undirbúa ályktanir í ráðinu um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum og svo er Alþjóðavinnumálastofnunin búin að láta sig þessi mál varða,“ segir Katrín. 

Í morgun fundaði hún einnig með Yves Daccord, framkvæmdastjóra Alþjóða Rauða krossins og heimsótti safn Alþjóða Rauða krossins um mannúðarmál. Á fundi hennar með Daccord ræddu þau m.a. stöðu mála í Sýrlandi, Jemen og Suður-Súdan og stuðning íslenskra stjórnvalda við starf Alþjóða Rauða krossins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Filippo Grandi, fram­kvæmda­stjóra Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Filippo Grandi, fram­kvæmda­stjóra Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR). Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Áhersla á réttindi til heilnæms umhverfis

Síðar í dag mun Katrín ávarpa mannréttindaráðið, sem fulltrúi Íslands, og þar hyggst hún leggja áherslu á jafnréttismál. „Enda er það eitt af okkar lykilmálum hér, sem og réttindi hinsegin fólks,“ segir Katrín, sem hyggst einnig ætla að fjalla sérstaklega um réttindi til heilnæms umhverfis, en töluverð umræða hefur skapast um þau réttindi á fundum ráðsins í þessari lotu að sögn Katrínar og til stendur að koma ákvæði um réttindi til heilnæms umhverfis inn í alþjóðlegar skuldbindingar aðildarríkjanna. 

„Með ákvæðinu er verið að draga ákveðna línu í sandinn hvað varðar ábyrgð okkar allra, hvort sem það eru stjórnvöld eða atvinnulíf, að tryggja að almenningur geti haft aðgang að hreinu vatni og lofti,“ segir Katrín. 

Umræða um réttindi til heilnæms umhverfis er ekki síst fyrirferðamikil vegna nýrra áskoranna í kjölfar loftslagsbreytinga að mati Katrínar. „Við erum að glíma við nýjar orsakir fyrir fólk á flótta og loftslagsflóttamenn eru staðreynd. Fólk er að missa heimkynni sín, ýmist vegna þurrka eða flóða eða annarra breytinga á veðurfari,“ segir Katrín. Umræðan snýst því um að leggja áherslu á aðgerðir sem geta forðað því að fólk sé á flótta, en aldrei hafa fleiri jarðarbú­ar verið á flótta eða á hrakn­ing­um vegna stríðsátaka að því er fram kem­ur í nýrri skýrslu Flótta­manna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna.   

„Lengi hægt að gera betur“

Katrín segir það jákvætt að fylgst er með hvernig Ísland tekur á móti kvótaflóttamönnum. Ísland tekur á móti 75 kvótaflóttamönnum í ár sem er stærri hópur en verið hef­ur til þessa. Næsti hópur kemur hingað til lands á næstunni og er það hópur LBGT-flótta­fólks frá Kenýa. Flóttamannamannastofnun SÞ hef­ur hrósað ís­lensk­um stjórn­völd­um fyr­ir það hvernig staðið er að mót­töku flótta­manna hér á landi sem Katrín er afar þakklát fyrir. 

„Það sem mér fannst áhugavert í þessu samtali er að það er tekið eftir hvernig er unnið með þeim sem eru að koma hingað. En auðvitað þurfum við stanslaust að vera með þessi mál í skoðun, það er lengi hægt að gera betur. En ég held að það sé mikilvægt að nálgast þetta út frá því að það sé vel tekið á móti þeim sem koma,“ segir Katrín.

Fram undan er aukið samstarf við Flóttamannastofnunina, meðal annars í tengslum við verkefni þar sem unnið er með fólki án ríkisfangs. „Þar hefur Ísland verið að ljúka ákveðnum verkefnum og vonumst til að geta skrifað undir yfirlýsingu einstaklinga sem eru án ríkisfangs von bráðar. Það eru mörg verkefni, ekki síst vegna þess hversu margir eru á flótta, og það er ljóst að þó að við séum ekki fjölmenn þjóð, þá skiptir máli hvað við erum að gera,“ segir Katrín. 

Hyggst standa við markmið í þróunarsamvinnu

Alþingi samþykkti í síðustu viku að lækka fyrirhuguð framlög til þróunarsamvinnu um 600 milljónir króna á ári. Þar af verða 300 milljónir færðar til útgjalda vegna viðhalds mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Katrín segir að þessi breyting á fjármálaáætlun hafi ekki áhrif á markmið ríkisstjórnarinnar um framlag til þróunarmála í stóra samhenginu. 

„Framlögin til þróunarsamvinnu eru miðuð við hlutfall af landsframleiðslu og það kom skýrt fram við samþykkt fjármálaætlunina í nefndaráliti meirihlutans að þau verða endurskoðuð við gerð fjárlaga. Það er búið að samþykkja þessi framlög sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í þróunarsamvinnuáætlun, það er í takt við stjórnarsáttmálann, og við hyggjumst standa við þau markmið sem við höfum sett okkur þar,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert