Atvinnuleysi eykst

Atvinnulausir í maí 2019 voru um 6.500 manns fleiri en …
Atvinnulausir í maí 2019 voru um 6.500 manns fleiri en á sama tíma árið 2018 þegar þeir voru 6.200 eða 3,0% af vinnuaflinu. mbl.is/​Hari

4,7% atvinnuleysi var í maí, samkvæmt árstíðaleiðréttingu Hagstofu Íslands. Að jafnaði voru 210.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í maí 2019. Það jafngildir 82,4% atvinnuþátttöku.

Af vinnuaflinu reyndust 197.500 vera starfandi og 12.700 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,4% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 6,1%, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar

Samanburður mælinga fyrir maí 2018 og 2019 sýnir að vinnuafli fjölgaði um 5.700 manns, á meðan hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 0,3 prósentustig. Starfandi fólki fækkaði um 800 og hlutfallið lækkaði um 2,3 prósentustig, frá því á sama tíma árið 2018. 

Atvinnulausir í maí 2019 voru um 6.500 manns fleiri en á sama tíma árið 2018 þegar þeir voru 6.200 eða 3,0% af vinnuaflinu. Alls voru 44.900 utan vinnumarkaðar í maí 2019 en höfðu verið 42.700 í maí 2018.

mbl.is