Burkard líklegur til að slá met Eiríks

Burkard er í góðum gír og líklegur til að slá …
Burkard er í góðum gír og líklegur til að slá einstaklingsmet í keppninni. Ljósmynd/Aðsend

Chris Burkard nálgast nú Vík í Mýrdal og gangi allt að óskum verður hann kominn í mark í Hafnarfirði í kringum miðnætti. Gangi það eftir setur hann nýtt einstaklingsmet í WOW Cyclothon.

„Hann er mjög fókuseraður ennþá og í góðum gír,“ segir Óskar Páll Sveinsson sem fylgir hjólreiðakappanum í keppninni. „Hann sagði það áðan að honum er orðið illt alls staðar, en hann lætur það ekki stoppa sig. Hausinn er enn alveg 100%, hvernig í ósköpunum sem hann fer að því.“

Burkard hjólar nú í talsverðum mótvindi á Suðurlandinu en Óskar segir það ekki hægja mikið á honum. „Hann er að setja rosalegan kraft í þetta.“

Burkard á íslensku Leaf-hjóli á leiðinni niður Öxi í gær.
Burkard á íslensku Leaf-hjóli á leiðinni niður Öxi í gær. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

Að sögn Óskars stefna þeir nú að því að ná að markinu í Hafnarfirði innan tíu klukkustunda og ættu því að vera þar um miðnætti í kvöld. „Maður veit að síðasti kaflinn verður erfiðastur svo það þarf að reikna með því.“

Burkard hjólar nú á um 25 km meðalhraða á klukkustund og haldi hann dampi verður hann kominn í markið á 53 klukkustundum og bætir þannig fyrra einstaklingsmet Eiríks Inga Jóhannssonar, sem er 56:12:40.

mbl.is