Minjastofnun stöðvaði framkvæmdir

Vötn á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á Ströndum.
Vötn á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

Framkvæmdir Vesturverks hafa verið stöðvaðar tímabundið á Ófeigsfjarðarvegi á Ströndum.

Þetta var ákveðið eftir að Minjastofnun benti á að hún ætti eftir að skila endanlegri umsögn um framkvæmdirnar. Stofnunin fór því fram á að þær yrðu stöðvaðar þangað til hún lægi fyrir en ýmsar fornminjar eru á svæðinu.

Framkvæmdirnar tengjast fyrirhugaðri Hvalárvirkjun.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, segir að fyrirtækið hefði talið eðlilegt að hreppurinn hefði verið búinn að bera þessar framkvæmdirnar við veginn undir Minjastofnun. Um er að ræða lagfæringar á veginum í grennd við núverandi veg.

Hún tekur fram að í umhverfismatinu og í matsskýrslu vegna Hvalárvirkjunar séu umræddar minjar skráðar.

Birna segir fyrirtækið vera að útvega þau gögn sem farið var fram á í tengslum við málið og telur að allt saman verði afgreitt á skömmum tíma. Þetta muni ekki skipta sköpum við framkvæmd verksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert