Sex ár fyrir tilraun til manndráps

Árás Sindra var hrottafengin, en hún átti sér stað um …
Árás Sindra var hrottafengin, en hún átti sér stað um hábjartan dag fyrir utan Arion banka á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sindri Brjánsson, karlmaður á þrítugsaldri, hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot, en hann stakk annan mann ítrekað í höfuð og búk fyrir utan Arion banka á Akureyri 3. nóvember síðastliðinn.

Hann var einnig dæmdur til að greiða 1,2 milljónir króna í miskabætur og allan sakarkostnað málsins, eða um 5,3 milljónir króna, fyrir utan kostnaðinn sem hlaust af endurflutningi.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, aðstoðarsaksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfesti dóminn í samtali við mbl.is og segir að hann hafi verið í samræmi við kröfur ákæruvaldsins. Fallist hafi verið á að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vefsíðu héraðsdóms.

Hrottafengin árás um hábjartan dag

Árás Sindra átti sér stað um hábjartan dag og var hrottafengin, en fórnarlambið hlaut tíu skurðsár, þar af tvo djúpa skurði á höfði, og tvö aðskilin höfuðkúpubrot.

Bergur Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra sem rannsakaði málið, sagði í samtali við mbl.is í nóvember að það hefði verið heppni að ekki hefði farið enn verr.

Blóðugur hnífur fannst á dvalarstað Sindra er hann var handtekinn skömmu eftir að árásin átti sér stað. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi allar götur síðan.

Eins og áður segir var Sindri var dæmdur til þess að greiða fórnarlambi árásinnar 1,2 milljónir króna í skaðabætur, en maðurinn mun alltaf bera ör eftir árásina.

mbl.is