„Gekk eins og smurt allan hringinn“

Lið Airport Direct keppti í B-flokki tíu manna liða þetta …
Lið Airport Direct keppti í B-flokki tíu manna liða þetta árið, en Jón var einnig í sigurliði Airport Direct í fyrra. mbl.is/​Hari

„Þetta var rosalega jafnt og sterkt lið og við áttum mjög góða samvinnu með World Class. Þetta gekk eins og smurt allan hringinn,“ segir Jón Skaftason, einn liðsmanna hjólaliðs Airport Direct sem kom fyrst liða í mark í WOW Cyclothon á níunda tímanum í morgun.

Lið Airport Direct keppti í B-flokki tíu manna liða þetta árið, en Jón var einnig í sigurliði Airport Direct í fyrra þegar liðið keppti í A-flokki fjögurra manna liða.

Að sögn Jóns voru aðstæður og veður gott stærstan hluta leiðarinnar. „Það var aðeins rigning í byrjun en svo mjög gott fyrir norðan og frábært alveg að Höfn, en þá fór að rigna og varð svolítið kaldara. Það var ekkert til að væla undan, bara hressandi.“

Liðsmenn Airport Direct og World Class fagna góðri samvinnu.
Liðsmenn Airport Direct og World Class fagna góðri samvinnu. mbl.is/​Hari

Eins og Jón minnist á var lið Airport Direct í samvinnu við lið World Class alla keppnina, en blandað lið World Class kom í mark örfáum mínútum á eftir liði Airport Direct. Sigurliðin tvö hristu að sögn Jóns hin liðin af sér við Öxi.

Sprengdu dekk þegar 2 km voru eftir

Þrátt fyrir orð Jóns um að allt hafi „gengið smurt“ viðurkennir hann að tveir liðsmanna hafi sprengt dekk þegar 2 km voru eftir af leiðinni. „Maður hefði kannski frekar verið til í að lenda í því svona 1.200 km fyrr,“ segir hann léttur í bragði.

Aðspurður hvað hafi verið skemmtilegast í keppninni í ár segir hann hópinn og stemninguna standa upp úr. „Þetta eru góðir strákar og gaman að vera með þeim. Svo er alltaf gaman að klifra, Öxin var skemmtileg,“ segir hann að lokum, að vonum sáttur með árangurinn og að vera kominn í mark.

mbl.is