Lögreglan harmar drátt á rannsókninni

Rannsókn lögreglu á andláti nýfædds barns á Landspítalanum í upphafi …
Rannsókn lögreglu á andláti nýfædds barns á Landspítalanum í upphafi árs 2015 hefur tafist ekki síst fyrir þær sakir að mjög erfiðlega hefur gengið að fá hlutlausa fagaðila að málinu, en leita hefur þurft út fyrir landsteinana eftir þeirri sérþekkingu sem krafist er. mbl.is/Eggert

Tafir á rannsókn lögreglu um tildrög andláts nýfædds barns á Landspítalanum í ársbyrjun 2015 hafa ekki síst orðið fyrir þær sakir að mjög erfiðlega hefur gengið að fá hlutlausa fagaðila að málinu, en leita hefur þurft út fyrir landsteinana eftir þeirri sérþekkingu sem krafist er.

Þetta kemur fram í svari miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn mbl.is. Lög­regl­an rann­sak­ar enn mál hjóna sem misstu ný­fætt barn sitt vegna læknam­istaka á Land­spít­al­an­um í byrjun árs 2015. Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að alls eru fimm starfs­menn spít­al­ans með stöðu sak­born­ings í mál­inu. Í svari lögreglunnar kemur fram að hún harmar þann drátt sem hefur orðið á rannsókn málsins.

Foreldrar barnsins, þau Sig­ríður Eyrún Friðriks­dótt­ir og Karl Ol­geirs­son, bíða enn svara og sendi lögmaður þeirra, Lára V. Júlí­us­dótt­ir, rík­is­lög­manni bréf í gær um að nú þyrfti hann að taka af­stöðu til bóta­kröf­unn­ar, þar sem ekk­ert bólaði á rann­sókn­arniður­stöðu lög­reglu.

Foreldrar Nóa Hrafns þau Karl Olgeir Olgeirsson og Sigríður Eyrún …
Foreldrar Nóa Hrafns þau Karl Olgeir Olgeirsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Skjáskot/RÚV

Tóku ákvörðun um að ljúka biðinni

Lára segir í samtali við mbl.is að hún hafi fengið staðfest frá embætti ríkislögmanns að bréfið hafi borist og á hún von á svari innan tveggja vikna. Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sagðist ekki getað tjáð sig um einstök mál í samtali við mbl.is en segir málið í ferli. Embættið vill bíða eftir niðurstöðu rannsóknar lögreglu en Lára segir að ekki sé þörf á því til þess að geta haldið skaðabótakröfunni áfram á hendur ríkinu sem send var haustið 2016. 

„Það er ekkert skilyrði fyrir skaðabótakröfu að rannsókn hjá lögreglu sé lokið. Í þessu máli liggur fyrir afstaða landlæknis þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að það voru gerð ýmisleg mistök í þessu máli og eins í raun viðurkenning frá forstöðumanni Landspítalans þar sem hann segir að hann harmi það að svona hafi farið, það gerði hann í fréttabréfi skömmu eftir fréttaflutning af málinu haustið 2016,“ segir Lára og vísar í vikulegan pistil Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans frá því í byrjun september 2016.   

Með því að senda bréf til ríkislögmanns í gær segir Lára að hjónin hafi tekið ákvörðun um að ljúka biðinni. „Það er ekki hægt að bíða lengur eftir viðbrögðum frá saksóknara eða lögreglurannsókn neitt frekar. Það er það sem hefur haldið aftur af okkur vegna þessa að ríkislögmaður óskaði eftir því að það yrði gert.“

Segir engan vafa á sökinni sem slíkri

Læknamistökin áttu sér stað í ársbyrjun 2015 en hjónin lögðu fram kæru hálfu ári síðar. „Þegar maður horfir á sambærileg mál hefur oft liðið langur tími frá því að atburðir verða og þar til máli er endanlega lokið,“ segir Lára. 

Engu að síður eru liðin rúmlega tvö ár frá því að lögregla hóf rannsókn. „Það er mjög langur tími miðað við rannsókn hjá lögreglu. En þegar maður lítur á heildina þá er tiltölulega fljótt leitað til landlæknis sem svaraði mjög ýtarlega eftir ár.“ 

Ekki hafa fengist svör frá lögreglu hvenær von er á rannsókn málsins ljúki. „Mér finnst enginn vafi á sökinni sem slíkri. Hver ber ábyrgð á hverju er kannski ekki aðalatriði fyrir minn skjólstæðing í sjálfu sér heldur er það ríkið sem er ábyrgur aðili fyrir starfsemi Landspítalans,“ segir Lára.

Ef að málinu verður synjað af hálfu ríkislögmanns mun málið að öllum líkindum fara fyrir dóm, sem Lára vonar þó að verði ekki niðurstaðan. Ef af því verður má hins vegar gera ráð fyrir að málinu verði stefnt til dóms eftir réttarhlé í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert