Huebler ekki í mark fyrir frest

Terri Huebler (fyrir miðju) mun ekki ljúka WOW Cyclothon fyrir …
Terri Huebler (fyrir miðju) mun ekki ljúka WOW Cyclothon fyrir tímafrest keppninnar. Ljósmynd/Aðsend

Terri Huebler, eina konan og ein þriggja einstaklingskeppenda í WOW Cyclothon, mun ekki ná að komast í mark innan tímafrests keppninnar. Þetta staðfestir Stefanía Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi WOW Cyclothon, í samtali við mbl.is.

Hún segir Huebler ekki hafa tilkynnt að hún hafi hætt í keppninni en nú virðist ljóst að hún nái ekki mark fyrir settan tímafrest, en hún er nú stödd við Jökulsárlón.

Huebler lýsti því yfir á Facebook að hún sé afar stolt af því sem hún hefur náð að áorka og þrátt fyrir að tíminn sé runninn út hvað keppnina varðar ætli hún að halda áfram og sjá hversu langt hún kemst. Þá hyggst hún gefa Reykjadal reiðhjólið sitt að keppni lokinni.

Huebler á ferð.
Huebler á ferð. Ljósmynd/Aðsend

Jafnframt sé hún ástfangin af Íslandi og náttúruöflunum. Hún segir að sér hafi hlýnað um hjartarætur við að upplifa alla þá gæsku og hvatningu sem aðrir keppendur og skipuleggjendur keppninnar hafi sýnt henni.

Hún varar þá sem hyggja á ferðalög til Íslands við vindi og segist hafa lent í ótrúlegum vindhviðum á leið sinni í kringum landið.

„Hún mun örugglega klára og er búin að segjast ætla að gera það.“ Aðeins ein önnur kona hefur klárað WOW Cyclothon í einstaklingskeppni.

Huebler, sem er frá Alaska í Bandaríkjunum, hefur tekið þátt í fjölda þrekíþróttakeppna. Meðal annars The Yukon River Quest þar sem farnar eru 444 mílur á kanó og Fireweek 400 Ultracycling Race.

Þrír keppendur voru í einstaklingskeppninni og kom Bandaríkjamaðurinn Chris Burkard fyrstur í mark og setti einnig met er hann kom í mark með tímann 52 tímar, 36 mínútur og 19 sekúndur.

Fyrra met átti Eiríkur Ingi Jóhannsson, 56 klukkutíma, 12 mínútur og 40 sekúndur. Eiríkur hætti keppni upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtudags vegna meiðsla.

Alls voru 47 tíu manna lið skráð til keppni, ekkert þeirra kvennalið og 11 lið blönduð. Þá eru 39 lið komin í mark, fjögur enn að hjóla en fjögur hafa hætt keppni.

Átta fjögurra manna lið eru í keppninni og hefur helmingur þeirra komið í mark en hinn helmingurinn er enn að hjóla. Í þessum flokki er eitt kvennalið og tvö blönduð.

mbl.is