Kom manni til bjargar í Reynisfjöru

Kristinn R. Ólafsson fararstjóri.
Kristinn R. Ólafsson fararstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kristinn R. Ólafsson, útvarpsmaður og fararstjóri, kom manni til bjargar í Reynisfjöru í gær. Frá þessu greinir Kristinn í kjarnyrtri færslu á Facebook, eins og honum einum er tamt.

Kristinn segir frá því hvar maðurinn, þýskur ferðalangur, hafði rifið sig úr fötunum og stóð í flæðarmálinu á sundskýlu einni klæða. Kristinn hljóp til mannsins og spurði hann hvort til stæði að drekkja sér. „You wanna drown yourself?“

Það stóð þó ekki til, heldur vildi hann einungis fá sér sundsprett. Kristinn skipaði manninum að koma sér upp úr vatninu og hlýddi hann möglunarlaust og segir Kristinn að sá þýski hafi sennilega talið hann yfirvald á staðnum. Áræðnin í tóninum og rauðstakkurinn sem hann klæddist hafi mögulega gefið honum strandvarðarlegt yfirvarp.

Ferðafólkið er varað við hættu sem getur fylgt ógætilegri framgöngu …
Ferðafólkið er varað við hættu sem getur fylgt ógætilegri framgöngu í Reynisfjöru. Morgunblaðið/Jónas Erlendsson

Hann náði síðan mynd af manninum þegar hann var aftur kominn til vits og klæða. Hann greinir frá því að í hita leiksins hafi menntaskólaþýskan brotist fram og hann hrópað að manninum „Viele Leute haben gestorben ... hier“ sem útleggst „Hér hafa margir dáið“, ef hin sama þýskukunnátta bregst blaðamanni ekki.

Er þar engu logið enda hefur fjöldi ferðamanna farið sér að voða í Reynisfjöru í gegnum tíðina og einhverjir látist. Skiltum hefur verið komið upp í grennd við fjöruna einmitt í þeim tilgangi til að vara við hættunni.

Kristinn er á hringferð um landið með hóp spænskra ferðamanna, en hann bjó um árabil í Madríd á Spáni og flutti landanum vikulegar hugvekjur í Speglinum á Rás 1 við góðan orðstír.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert