„Hei, róum okkur aðeins. Hvað vilt þú?“

söngkonan Bríet hefur látið til sín taka að undanförnu.
söngkonan Bríet hefur látið til sín taka að undanförnu. mbl.is/Hari

Í byrjun ársins 2018 gaf söngkonan Bríet Ísis Elfar út lagið In To Deep. Þetta var fyrsta lagið sem söngkonan gaf út, en lagið samdi hún ásamt Pálma Ragnari Ásgeirssyni, stofnanda útgáfufyrirtækisins Rok Records.

Fimm dögum eftir útgáfu In To Deep byrjaði síminn að hringja. Fjöldi útgáfufyrirtækja barðist um að fá hana til að skrifa undir plötusamning. Flogið var með Bríeti til London þar sem hún fundaði með útgefendum á borð við Sony og Universal.

„Ég fer út og fæ spurningar eins og hver stefnan mín sé, hverjum ég vilji líkjast, hvar ég vilji vera eftir fimm ár. Þeir vildu að ég tæki upp listamannsnafn. Það hefði verið ótrúlega auðvelt að segja já og skrifa strax undir plötusamning,“ rifjar Bríet upp. „Ég fékk svona „hei, róum okkur aðeins. Hvað vilt þú?“ Ef ég skrifa undir samning núna munu þeir taka við listakonu sem veit ekki hver hún er og búa hana til. Ég vil það ekki. Ég vil vera Bríet.

Bríet fylltist efasemdum við fundarhöldin. Hún hafði aðeins gefið út eitt lag og leið eins og hún væri ekki tilbúin til að skrifa undir stóran plötusamning. „Mig langaði að klára skólann og halda áfram að vinna í tónlistinni minni. Þau sögðu mér að þetta tækifæri myndi ekki koma aftur, en mér fannst ég ekki vera tilbúin,“ segir Bríet.

Eftir að hafa hugsað sig vel um ákvað Bríet að skrifa ekki undir plötusamning. Í staðinn hélt hún til Íslands og hélt áfram að semja tónlist

Ekki þess virði að gefa út plötu

Bríet segist ekki ætla að gefa út plötu í fullri lengd á næstunni, þótt sögusagnir þess efnis grasseri á hinum ýmsu tónlistarbloggum. „Það er bara bull,“ svarar hún brosandi. Ég er ekki að fara að gera plötu strax, ég sé bara ekki ástæðu til þess.“ Bríet telur að streymisþjónustur og samfélagsmiðlar hafi minnkað eftirspurn eftir plötum í fullri lengd. „Það er eiginlega ekki þess virði að leggja alla þessa vinnu í að semja heila plötu þegar það er bara eftirspurn eftir einstökum lögum.“

Ég ætla klárlega að gefa út plötu einhvern tíma, en ég vil að það verði sérstakt. Þangað til ætla ég að einbeita mér að því að gefa bara út lög.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert