Maður verður háður þessu

Ólöglega brúnkulyfið Melanotan er í umferð hér á landi og …
Ólöglega brúnkulyfið Melanotan er í umferð hér á landi og er fólk á ýmsum aldri að sprauta því í sig til þess að fá dekkri hörundslit.

Melanotan er lyf sem örvar húðfrumur til að mynda litarefni og þannig verður húðin sólbrún án sólar. Þar sem við vitum í dag að sólin hefur veruleg krabbameinsvaldandi áhrif á húðina var talið að með því að þróa lyf sem örvaði litarefnið þá gætum við varið húðina gegn krabbameini,“ segir Jenna Huld og segir að reyndin sé sú að nú óttist læknar að lyfið geti valdið húðkrabbameini.

„Melanotan I og II örva litarefni húðfrumnanna og þá verður húðin sólbrún án sólar. Melanotan II er yfirleitt það sem er keypt á netinu og það er kallað barbí-lyfið. Það hefur fleiri aukaverkanir en Melanotan I og þessar algengu aukaverkanir lyfsins þykja mjög eftirsóknaverðar, þar sem matarlyst minnkar vegna ógleði og viðkomandi grennist og svo örvast kynhvötin. Þetta lyf hefur sem sagt víðtæk áhrif og virkar ekki bara á húðlitinn,“ segir hún.

Sortuæxli mesta áhyggjuefnið

„Mestu áhyggjurnar eru að með því að örva litarfrumurnar gætu myndast sortuæxli en þau koma frá þessum sömu frumum. Sjúkratilfellum hefur verið lýst og þau birt í virtum læknatímaritum þar sem sýnt er fram á að fæðingarblettir breyta sér og fara að haga sér öðruvísi og það hafa komið fram tilfelli þar sem fólk hefur greinst með sortuæxli,“ segir hún.

„Það er frekar óhugnanlegt fyrir okkur lækna að vita af …
„Það er frekar óhugnanlegt fyrir okkur lækna að vita af því að fólk sé að sprauta sig með einhverju lyfi sem fer út í blóðrásina og enginn veit hvað er,“ segir húðlæknirinn Jenna Huld Eysteinsdóttir.

„Það er auðvitað okkar stærsta áhyggjuefni af því sortuæxli er mjög alvarlegt og greinist gjarnan í ungu fólki. Það getur í versta falli leitt til dauða ef það greinist of seint,“ segir Jenna og nefnir að erfitt sé að rannsaka langtímaáhrif lyfsins.

Jenna segir að sá hópur sem fer í ljósabekki eða sólböð í óhófi sé líklega sami hópur og sprauti sig með lyfinu og því geti verið erfitt að meta hvað af þessu veldur sortuæxlum hjá þeim sem með það greinast.

„Þetta fólk vill verða brúnt. Auðvitað þyrfti að taka það upp hjá landlækni ef notkunin á Melanotan er orðin víðtæk hér. Það er frekar óhugnanlegt fyrir okkur lækna að vita af því að fólk sé að sprauta sig með einhverju lyfi sem fer út í blóðrásina og enginn veit hvað er. Mér líst alls ekkert á þetta.“

Mamma fann sprautu

Blaðamaður náði tali af ungri konu sem ekki vildi koma fram undir nafni, þar sem lyfið er ólöglegt. Í þessu viðtali gengur hún undir nafninu María. Hún er tuttugu og þriggja ára einstæð móðir með fallegan brúnan húðlit. Hann fékk hún ekki af útiveru heldur sprautar hún sig reglulega með ólöglega lyfinu Melanotan, stundum kallað „Barbie drug“ eða Barbí-lyf. 

María hefur notað lyfið síðan hún var fjórtán ára gömul.

„Ég hef ekki notað þetta að staðaldri en af og til. Maður gerir ekkert of mikið af þessu. Ég prófaði þetta fyrst í níunda bekk,“ segir hún og er því búin að nota lyfið af og til á síðustu níu árum.

„Ég notaði þetta ekkert í þrjú ár, 2014-16. Stundum fær maður það í hausinn að mann langi að verða geðveikt brúnn og þá setur maður þetta í sig. En stundum langar mig ekki að vera á þessu af því mér verður svo óglatt og þá sleppi ég því,“ segir hún og segist hafa fyrst heyrt um lyfið frá eldri vinkonu.

„Vinkona mín átti þá kærasta sem var á sterum og þetta var selt af þessum sterasölumönnum,“ segir hún og segist hafa falið þetta vel fyrir foreldrum sínum.

„Ég geymdi þetta heima hjá vinkonu; mamma vissi ekkert af þessu. Svo eitt sinn gerði ég þetta heima og gleymdi að fara út með ruslið og mamma fann sprautuna og trylltist og fékk sjokk. Þá þurfti ég að útskýra fyrir henni að ég væri að sprauta brúnku í magann á mér og hún sturlaðist. Ég hætti þá því ég fékk samviskubit,“ segir hún.

„Pabbi veit ekki neitt enn.“

Mjög margir nota lyfið

Spurð um hvernig hún noti lyfið segist María nota insúlínsprautu til þess að sprauta lyfinu í sig undir húð.  

„Þú kannski sprautar þessu í þig fimm daga í röð þangað til þú ert kominn með þann lit sem þú vilt hafa á þér og svo eftir það sprautarðu þig á viku til tveggja vikna fresti. Til þess að halda við litnum,“ segir hún og segist nýbúin að klára þann skammt sem hún þarf til þess að vera sátt við hörundslitinn.  

„Ég er hætt núna; ég gerði þetta í tvær vikur og svo helst efnið í þér í þrjá mánuði,“ segir hún og segist aðallega nota lyfið á sumrin.

Hvaðan færðu upplýsingar um lyfið og hvernig á að nota það?

Lyfið er selt í hylkjum á netinu og á svörtum …
Lyfið er selt í hylkjum á netinu og á svörtum markaði hérlendis. mbl.is/Ásdís

 „Strákarnir sem eru að selja þetta segja manni hvernig á að nota það. Þetta er á svörtum markaði. Ég þekki þá ekki en veit hverjir þeir eru; maður fær bara eitthvert númer og hringir. Ég borgaði fimm þúsund fyrir glasið og það dugar í mánuð, en það er misjafnt hvað er rukkað fyrir þetta. Ég hef heyrt tölur upp í fimmtán þúsund,“ segir hún og segist eiga vini sem nota líka lyfið.  

„Það eru mjög margir að nota þetta. Við erum þrjár eða fjórar vinkonur sem erum að nota þetta núna. Tvær eru í útlöndum núna og keyptu sér til dæmis glas áður en þær fóru út. Svo þekki ég alveg konur á mömmu aldri sem eru á þessu.“

Sætari ef maður er brúnn

Af hverju notar þú þetta?

„Ég nota þetta af því ég er svo lengi að fá lit af því ég er rauðhærð en ef ég set þetta í mig fæ ég fyrr lit.“

Hvaða aukaverkunum hefur þú fundið fyrir?

„Ógleði. Það kemur nokkrum mínútum eftir að ég sprauta þessu í mig og varir í svona hálftíma, klukkutíma.“

Ertu ekkert hrædd um að þetta geti haft langtímaáhrif og jafnvel skemmt eitthvað?

„Jú, ég hef oft hugsað út í það og við stelpurnar höfum verið að ræða það. Við höfum farið inn á vefsíðuna og skoðað þetta. Auðvitað geta komið litabreytingar í húðina því þegar þú sprautar þessu í þig ertu að lita húðfrumurnar svartar. Ég er komin með blett í andlitið þar sem ég fæ ekki lengur freknur en ég veit ekki hvort það tengist þessu.“

Fyrir fólk á þínum aldri, er mikilvægt að vera brúnn?

„Já, eiginlega. Við erum alltaf að spá í það. Manni finnst maður sætari ef maður er brúnn. Maður getur alveg orðið pínu háður þessu og þá þarf maður að fara að passa sig. Svo getur maður fengið húðsvepp en ég veit ekki af hverju hann kemur. En maður er bara svo háður þessu.“

Ítarlegri umfjöllun um melanotan er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert