Vatnajökulsþjóðgarður stækkar

Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og …
Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Vatnajökulsþjóðgarður stækkar um 560 ferkílómetra þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra undirritar í dag reglugerð sem gerir hluta af Herðubreiðarfriðlandi hluta af þjóðgarðinum. 

„Með breytingunni fær Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, þann sess sem hún á skilið. Þarna eru einstakar jarðminjar á heimsvísu,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Við þjóðgarðinn bætist einnig stærri hluti Ódáðahrauns en þar er m.a. að finna Kollóttudyngju, Eggert og Bræðrafell. Ódáðahraun einkennist af víðfeðmum hraunbreiðum og vikrum og margar sérstæðar jarðmyndanir eru í hrauninu. Herðubreið er þekktust en hún er stapi sem varð til þegar ísaldarjökull var um 1.000 metra þykkur á þessum slóðum.

Samhliða þessu er búið að tryggja fjármagn til landvörslu á svæðinu og verða meðal annars merkingar bættar sem og göngustígar á svæðinu. Fyrir liggur gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið, sem unnin verður af svæðisráði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, með þátttöku almennings og hagaðila.

Á þingi UNESCO á föstudaginn í næstu viku 5. júlí verður ákveðið hvort Vatnajökulsþjóðgarður verði skráður á heimsminjaskrá UNESCO.  

Ráðherra ávarpar samkomuna við undirritunina.
Ráðherra ávarpar samkomuna við undirritunina. Ljósmynd/Aðsend
Herðubreið er orðin hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Herðubreið er orðin hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert