Helmingur þegið bætur frá Procar

Bílaleigan Procar.
Bílaleigan Procar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bílaleigan Procar hefur boðið viðskiptavinum, sem keyptu bíla þar sem búið var að eiga við kílómetrastöðuna, bætur. Um helmingur þeirra 130 viðskiptavina sem um ræðir hefur þegið bæturnar, en tilboðið stendur í fjórar vikur. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV

Hulunni var svipt af umfangsmiklu svindli bílaleigunnar Procar í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV fyrr á árinu. Starfsmenn bílaleigunnar höfðu þá um árabil átt við kílómetrastöðuna á bílunum, svo þeir virtust minna keyrðir, áður en þeir voru leigðir út til ferðamanna og á endanum seldir.

Í umfjöllun Kveiks var rætt við fyrrverandi starfsmann fyrirtækisins sem hafði fengið fyrirmæli að ofan um að gera þetta. Í um­fjöll­un­inni kom einnig fram að gögn sem starfsmaðurinn út­vegaði og af­henti Kveik, sýni að tug­ir þúsunda kíló­metra hafi verið tekn­ir af akst­urs­mæl­um í fjölda bíla.

Eftir að hafa í upphafi hafnað öllum ásökunum, játuðu forsvarsmenn bílaleigunnar verknaðinn, en héldu því þó fram að honum hefði verið hætt árið 2015. Hygðist fyrirtækið bjóða þeim, sem svindlað var á, bætur.

Fá mismuninn auk 40% álags

Procar leitaði til lögmannsstofunnar Draupnis og segir Gestur Gunnarsson lögmaður í samtali við mbl.is að allir núverandi eigendur bíla fái bréf með boði um bætur. Hann vildi þó ekki gefa upp hve háar bæturnar eru, og væntir þess að um það ríki gagnkvæmur trúnaður. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hljóða tilboðin þó upp á mismuninn á áætluðu markaðsverði bíls miðað við rétta kílómetrastöðu og upplogna, að viðbættu 40% álagi.

Ætla má að þeir sem ekki muni samþykkja tilboðið hyggi á lögsókn, annaðhvort hver í sínu lagi eða sem hópmálsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert