Allir starfsmenn fengu eina krónu í laun

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar eru um 2.000 talsins. Allir fengu þeir eina …
Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar eru um 2.000 talsins. Allir fengu þeir eina krónu útborgaða í morgun. mbl.is

Mörgum starfsmanni Hafnarfjarðarbæjar brá eflaust í brún í morgun þegar loks kom að útborgun fyrir júnímánuð. Tékkinn var ekki upp á marga fiska, útborguð laun voru ein heil króna. 

Krónan stóð óhögguð í um kortér en var svo hrifsuð á brott aftur. Um mistök hafði verið að ræða og stuttu síðar höfðu starfsmennirnir fengið launin sín. 

Og enginn hringdi brjálaður inn á launadeild, að sögn Árdísar Ármannsdóttur samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar. „Við urðum alla vega ekki vör við nein símtöl eða slíkt í morgun. En mér skilst að einhver umræða hafi orðið um þetta á samfélagsmiðlum,“ segir hún.

Kennari í Hafnarfirði birti þessa færslu á Facebook í morgun. …
Kennari í Hafnarfirði birti þessa færslu á Facebook í morgun. Mistökin vöktu lukku frekar en furðu enda gerðu flestir sér grein fyrir því að þetta væri ekki gert af ásetningi. Ljósmynd/Skjáskot

Um mannleg mistök var að ræða, segir Árdís. „Við útkeyrslu launa í morgun er send röng skrá á bankann sem verður til þess að þessi króna er lögð inn á fólk. Hún er svo strax tekin út aftur og þetta lagfært innan 15 mínútna,“ segir Árdís.

Hún fékk sjálf eina krónu útborgaða en velti því ekki sérstaklega fyrir sér. Hún fékk svo launin sín, eins og aðrir. 

Um 2.000 starfsmenn bæjarins gera um 2.000 krónur útborgaðar. Það væri ekki amalegt ef sá væri allur starfsmannakostnaður bæjarins. „Nei, ekki miðað við umfang sveitarfélagsins,“ segir Árdís glöð í bragði.

mbl.is