Reið og hissa á umgengni í Sveinsgili

Sveins­gil, fyr­ir miðju á mynd­inni. Þar eru nú hjóla­för.
Sveins­gil, fyr­ir miðju á mynd­inni. Þar eru nú hjóla­för. mbl.is/RAX

Íslenska fjallahjólabandalagið segist fordæma hjólreiðar utan slóða í Landmannalaugum sem mbl.is greindi frá í morgun. Slík umgengni gefi ekki rétta mynd af fjallahjólreiðamönnum á Íslandi sem leggi áherslu á að sýna náttúrunni virðingu. 

Í tilkynningu sem bandalagið sendi frá sér segir að hjólreiðar utan slóða séu ekki í samræmi við þau grunngildi sem Fjallahjólabandalagið vinnur samkvæmt. Segist bandalagið fordæma „þessa glórulausu umgengni í viðkvæmri náttúru landsins“.

„Meðal fjallahjólreiðafólks er hegðun sem þessi almennt talin algjörlega fráleit, og svæði eins og þetta í Landmannalaugum á að sjálfsögðu að vera algerlega laust við umferð hvort sem er gangandi eða hjólandi. 

„Við munum hafa samband við viðkomandi einstakling um leið og við vitum um hvern ræðir, og koma á framfæri þeim grunngildum sem Fjallahjólabandalagið vinnur samkvæmt,“ segir í tilkynningunni. 

Á meðal gilda bandalagsins eru að skilja ekki eftir sig óþarfa ummerki og að hjóla á slóðum sem þola hjólreiðar. 

Rúnar Ómarsson.
Rúnar Ómarsson.

„Við erum í samstarfi við ýmsa aðila að koma á framfæri þessum gildum, einmitt til að koma í veg fyrir álíka vitleysu eins og sést á þessum myndum. Á Íslandi eru frábærar aðstæður og slóðar sem henta vel til fjallahjólreiða, og utanslóðahjólreiðar sem þessar því alger hreinasta vitleysa og ábyrgðarleysi,“ segir í tilkynningunni. 

Rúnar Ómarsson, leiðsögumaður og fjallahjólreiðamaður, segir í samtali við mbl.is að bandalagið sé mjög ósátt þar sem þetta gefi á engan hátt rétta mynd af umgengni fjallahjólreiðamanna. 

„Við höfum hjólað á bæði hálendi og láglendi Íslands í um það bil 25 ár. Markmiðið er alltaf að skilja aldrei eftir sig verksummerki. Við höfum alltaf lagt áherslu á góða umgengni við náttúruna þannig að þetta er algjört undantekningadæmi og þess vegna erum við bara að undirstrika það strax og harðlega hvað þetta er mikil vitleysa. 

„Við erum mjög reið og hissa á þessari umgengni og fordæmum hana bara harðlega,“ segir Rúnar. 

Sjá má hér hjólaför í Sveinsgili.
Sjá má hér hjólaför í Sveinsgili. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert