Undarlegt að Procar sé í bílstjórasætinu

FÍB kallar eftir því að lögum verði breytt þannig að …
FÍB kallar eftir því að lögum verði breytt þannig að bílaleigubílar þurfi á tíðari skoðunum að halda en almennir fólksbílar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir tilboð bílaleigunnar Procar um bætur vegna svika þeirra vera langt undir því sem eðlilegt gæti talist. Greint var frá því í gær að Procar hefði boðið þeim viðskiptavinum, sem keyptu bíl þar sem búið var að eiga við kílómetrastöðuna, bætur og herma heimildir að tilboðið hljóði upp á mismuninn á markaðsvirði bílsins miðað við rétta og upplogna kílómetrastöðu, það er dulið verðfall, auk 40% álags.

Runólfur hefur sitthvað við það að athuga. Fyrir það fyrsta virðist sem verðfallið sé metið á um 3 krónur á hvern ekinn kílómetra, meðan að könnun FÍB um verðfall, miðað við verð á notuðum bílum, bendi til að það sé nær 12 krónum á kílómetra. Þá er miðað við svokallaðan „umframakstur“ þ.e. akstur umfram 17 þúsund kílómetra á ári, sem telst í meðallagi. Ljóst er að útkeyrðir bílaleigubílar slá því margfalt við. Rétt er að taka fram að þegar mbl.is leitaðist eftir upplýsingum frá lögmönnum Procar, lögmannsstofunni Draupni, um útreikning bótafjárhæðar fengust þau svör að þær væru trúnaðarmál. Því byggja allir útreikningar á dæmum frá einstöku viðskiptavinum, sem mbl.is hefur undir höndum.

Procar svartur blettur á eigendaskrám

Í öðru lagi, segir Rúnólfur að taka verði tillit til þess að nafn Procar teljist smánarblettur á eigendaskrá bíls. Tortryggni gæti eðlilega í garð félagsins og það eitt að sjá nafnið á lista yfir fyrri eigendur veki efasemdir hjá áhugasömum bílakaupendum. Runólfur segist þekkja dæmi um fólk í Vestmannaeyjum, sem hafi tekið þá ákvörðun að keyra bílinn sinn frekar út en að reyna nokkurn tímann að selja hann þar sem það leggi ekki í það, hvað sem bótum líður.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í fréttaskýringarþættinum Kveik í febrúar var rætt við Pál Bergþórsson, lögmann sem fer fyrir hópmálsókn gegn Procar. Krafa umbjóðenda hans var skýr: kaupsamningi skyldi rift vegna forsendubrests. Kaupendur vilja skila bílnum til Procar og fá endurgreitt að fullu, sennilega með vöxtum og verðbótum. Hafði Páll sömu sögu að segja og Runólfur; nafn Procar á eigendasögunni gerði bílinn illseljanlegan.

Taka tilboði með óbragð í munni

Runólfur þekkir þó í það minnsta tvö dæmi þess að fólk hyggist taka tilboði Procar, „með óbragð í munninum, ef svo má segja“. Annað er fyrrnefnt dæmi úr Eyjum. Þeim bjóðast 60 þúsund krónur, sem er varla upp í nös á ketti. Hitt tilboðið er öllu myndarlegra, enda svindlið svæsnara, en það hljóðar upp á 330 þúsund krónur.

Í báðum tilvikum óttist eigendur að gjaldþrot Procar sé á næsta leiti og vilja fá bætur, þó litlar séu, áður en kennitalan verður komin undir græna torfu.

Sumir verja meiri tíma í einkabílnum en í faðmi fjölskyldunnar. …
Sumir verja meiri tíma í einkabílnum en í faðmi fjölskyldunnar. Það fylgir dreifðri byggð. mbl.is/Valli

Runólfur furðar sig á því að Procar ætli sér upp á sitt einsdæmi að bjóða þeim, sem svindlað var á, bætur án þess að nokkuð samráð sé haft við kóng eða prest. „Það er undarlegt að þeir séu í bílastjórasætinu,“ segir hann og bendir á að í bréfum, sem mbl.is hefur undir höndum, sé þess krafist að gagnkvæmur trúnaður ríki um tilboð Procar. Trúnaðarbrot geti valdið því að „samningar falli niður“ eða með öðrum orðum að Procar dragi tilboð sitt til baka, þó það verði að teljast hæpið að fyrirtækið geri það og neyði þar með viðskiptavini til að fara dómstólaleiðina.

Snýst ekki bara um peninga — líka öryggi

Runólfur segir að oft vilji gleymast að slíkt fikt í kílómetrastöðu bíla hafi ekki bara fjárhagslegar afleiðingar. Þær geti líka stefnt öryggi ökumanna í hættu, enda vanræki þeir hefðbundið viðhald þegar þeir halda að bíllinn sé minna keyrður en raunin er.

Hann nefnir sem dæmi mann sem lenti í að kaupa bíl, þó ekki af Procar, sem hann taldi búið að keyra 70 þúsund kílómetra. Á miðri Reykjanesbraut fer tímareimin í bílnum, eitthvað sem á ekki að þurfa að athuga með fyrr en eftir 120 þúsund kílómetra. Kom síðar í ljós að bíllinn var keyrður talsvert umfram það.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæti verið útbreiddara vandamál

Ekki þarf að senda nýja bíla í skoðun fyrr en að fjórum árum liðnum, og gildir það jafnt um bílaleigubíla sem almenna fólksbíla. Bílaleigubílar eru jafnan keyptir nýir, þeir keyrðir út í nokkur ár og svo seldir ódýrir. Því sleppa flestir bílaleigubílar við það að vera nokkurn tímann skoðaðir. FÍB kallar eftir því að lögum verði breytt þannig að bílaleigubílar þurfi á tíðari skoðunum að halda en almennir fólksbílar. Þannig megi gera svikurum erfiðara fyrir, en samkvæmt heimildum mbl.is er það útbreidd skoðun innan bílabransans að svikin einskorðist ekki endilega við Procar.

Runólfur furðar sig á því að stjórnvöld hafi ekki tekið harðar á bílaleigunni Procar, sem er enn starfandi og í samkeppni við heiðvirðar leigur. Sú ákvörðun að svipta hana ekki starfsleyfi sé undarleg í ljósi þess að í lögum séu „góðir viðskiptahættir“ nefndir sem skilyrði leyfisveitingar, og allir sammála um að framferði Procar teljist ekki til slíkra, þeirra á meðal Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, þótt hún hefði á sínum tíma ekki viljað gefa skýrt svar um hvort hún teldi að Samgöngustofa skyldi svipta fyrirtækið leyfinu. Sagði hún aðgerðir sem slíkar vera „íþyngjandi“ og því þurfi á skýrri lagaheimild að halda.

Runólfur segir ótækt að heiðvirð fyrirtæki verði að keppa við …
Runólfur segir ótækt að heiðvirð fyrirtæki verði að keppa við önnur, sem fari ekki að reglum. Ferðamenn, sem hingað koma til lands, vita skiljanlega lítið sem ekkert um forsögu bílaleiga. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina