Vigdís leggur fram aðra kæru

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi hefur kært úrskurð kjörnefndar sem skipuð var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til dómsmálaráðuneytisins. Kjörnefnd sýslumanns vísaði máli hennar frá í síðustu viku, en það snýst um úrskurð Persónuverndar um framkvæmd borgarstjórnarkosninga í Reykjavík í fyrra.

Vigdís segir í kæru sinni, sem hún sendi á fjölmiðla síðdegis, að hún líti svo á, þvert á niðurstöðu kjörnefndar, að kærufrestur vegna málsins sé ekki útrunninn, en kjörnefndin sagði í niðurstöðu sinni að lögbundinn kærufrestur vegna þeirra atriða sem Vigdís gerir athugasemdir við hafi verið 2. júní 2018, eða viku eftir að kosningarnar fóru fram.

Vigdís segir að við þá túlkun beiti nefndin „lagaeyðuákvæði sem teljast verði kæranda í hag vegna alvarleika brotsins og fordæmalausra vinnubragða Reykjavíkurborgar sem Persónuvernd úrskurðaði um að afloknum lögbundnum sveitarstjórnarkosningum“.

Hún segir jafnframt að hún líti svo á að „nýr kærufrestur“ hafi byrjað 7. febrúar síðastliðinn, þegar Reykjavíkurborg var birtur úrskurður Persónuverndar og óskar eftir því að dómsmálaráðuneytið vísi kæru hennar að nýju til kjörnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert