Armstrong góður maður en ekki veiðimaður

Fyrsti tunglfarinn, Neil Armstrong, við veiði í Laxá.
Fyrsti tunglfarinn, Neil Armstrong, við veiði í Laxá. Morgunblaðið/Sverrir Pálsson

20. júlí verður hálf öld liðin frá því Neil Armstrong sté fyrstur manna á tunglið í beinni útsendingu. „Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið,“ og allt það. En það sem fæstir eru meðvitaðir um er þáttur sjávarþorps á Íslandi í þessum áfanga í mannkynssögunni.

Á þessa leið hefst sérstök umfjöllun á vef breska ríkisútvarpsins um þátt Húsavíkur í landvinningum Bandaríkjamanna í geimnum. Eins og þekkt er voru á fjórða tug geimfara sendir til Húsavíkur árið 1965 og aftur árið 1967 til þess að æfa sig í svipuðu landslagi og þeir myndu síðar kynnast á tunglinu.

„Ísland lítur eins út og tunglið. Landslagið er eins og af öðrum heimi, ekki síst á sumrin þegar minna er af snjó og ís í þessari norðurskautseyðimörk,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson í samtali við BBC um málið. „En það er ekki ástæðan fyrir því að geimfararnir voru sendir hingað. Það var vegna jarðfræðinnar,“ segir hann og útskýrir að hér hafi geimfararnir verið þjálfaðir til þess að velja besta grjótið til að taka með heim af tunglinu.

Á Hönnunarsögusafninu í Húsavík er sagt frá geimförunum sem komu …
Á Hönnunarsögusafninu í Húsavík er sagt frá geimförunum sem komu hingað í undirbúningi fyrir geimför.

Fór með geimfarana að veiða

BBC tekur viðtal við Ingólf Jónasson, bónda á Helluvaði í Mývatnssveit, sem var rétt undir tvítugu þegar geimfararnir fóru um Ísland. Meðan á dvöl þeirra stóð kom íslenskur jarðfræðingur sem tók þátt í verkefninu til Ingólfs og bað hann að fara með tvo geimfara að veiða, þá langaði að prófa það.

Ingólfur Jónasson bóndi á Helluvaði í Mývatnssveit er í viðtali …
Ingólfur Jónasson bóndi á Helluvaði í Mývatnssveit er í viðtali við BBC um hálfrar aldar afmæli tunglfararinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Og það voru Neil Armstrong og Bill Anders, sem báðir áttu eftir að fara til tunglsins þegar fram liðu stundir. Ingólfur fór með þá að veiða í Laxá en Armstrong var ekki sérstakur veiðimaður, að sögn Ingólfs. „Fiskarnir nörtuðu í beituna en hann veiddi ekkert.“ 

Sömuleiðis rifjar Ingólfur upp sveitaball í Skjólbrekku félagsheimili. „Ég man eftir æsingnum þegar þeir komu inn. Allir voru áhugasamir um þá af því að þeir voru geimfarar hér á Íslandi. Þeir skáru sig úr og allir tóku eftir þeim. Sumir dönsuðu jafnvel við stelpurnar,“ segir hann. Hann bætir við að það hafi verið sérstakt fyrir hann að hlusta á það í útvarpinu þegar Armstrong lenti fyrstur manna á tunglinu. „Ég hafði kynnst þessum manni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert