Kyrrsetning heimil í milljarða skattamáli

Meint skattaundanskot eru umfangsmikil, en upp um þau komst er …
Meint skattaundanskot eru umfangsmikil, en upp um þau komst er ríkið keypti skattagögn sem lekið hafði verið frá aflandseyjum. mbl.is/RAX

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að sýslumanni sé heimilt að kyrrsetja eignir konu, en fyrrverandi eiginmaður hennar er grunaður um milljarðaskattalagabrot.

Forsaga máls er sú að þáverandi eiginmaður konunnar er til rannsóknar hjá ríkisskattstjóra vegna gruns um umgangsmikil skattalagabrot árin 2011 til 2016, sem upp komst um eftir kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum tengd Panamaskjölunum. Hjónin skildu árið 2013.

Meint skattaundanskot nema rúmum milljarði króna og fór skattrannsóknarstjóri þess á leit við sýslumann árið 2017 að eignir að fjárhæð tæpra 327 milljóna króna yrðu kyrrsettar til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu og sektar.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri mbl.is/Rósa Braga

Lítið fékkst upp í 1.200 milljóna kröfu

Í desember 2018 óskaði skattrannsóknarstjóri þess síðan að 98,5 milljónir króna af eignum hans til viðbótar, og síðar í mánuðinum fór hann fram á að um 1.200 milljónir yrðu kyrrsettar þar sem skattakrafan hljóðaði upp á 335 milljónir auk 818 milljóna í sektargreiðslu. Varð sýslumaður við öllum þessum beiðnum.

Engar eignir fundust hins vegar upp í síðastnefndu kyrrsetningarkröfuna og fór skattrannsóknarstjóri þess á leit að hann kyrrsetti eignir eiginkonunnar fyrrverandi þess í stað. Hjónin fyrrverandi beri enda sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum fyrirtækisins sem talið er að hafi verið skotið undan árin 2011 til 2013 meðan þau voru enn í hjónabandi.

Sýslumaður staðfesti beiðnina og fengust eignir að fjárhæð 100 milljónir upp í kröfuna; 15 milljónir í verðbréfasafni og 85 milljóna króna eignahlutur í fasteign. Konan kærði úrskurðinn til héraðsdóms, sem staðfesti kyrrsetninguna, og sama gerði Landsréttur í morgun.

Rannsókn á skattaundanskotunum er þó ekki lokið, en von er á ákæru á næstu misserum. Verði hann sakfelldur ganga kyrrsettar eignir upp í skattaskuldina og sekt, en að öðrum kosti fá þau eignirnar til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert