Lengsti þurrkur frá upphafi mælinga

Það rigndi lítið í Stykkishólmi í júní.
Það rigndi lítið í Stykkishólmi í júní. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lengsti þurrkur frá upphafi mælinga mældist í Stykkishólmi frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga. Ekki hefur mælst lengri þurrkur þar frá því mælingar hófust árið 1856. Nýliðinn mánuður var þurr og hlýr um sunnan- og vestanvert landið en svalara var norðan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 29,5 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 14,3 mm sem er 50% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 12,3 mm sem er 30% af meðalúrkomu. Í Höfn mældist úrkoman aðeins 7,2 mm.

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 10,4 stig og er það 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,6 stig, 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,9 stig og 9,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 303,9 sem er 142,6 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Aðeins fjórum sinnum hafa sólskinsstundirnar verið fleiri í Reykjavík í júní, mest 338,3 stundir árið 1928, en einnig mældust sólskinsstundirnar fleiri en nú árin 2012, 1924 og 2008. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 186,3, sem er 9,7 stundum fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. 

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 10,8 stig við Lómagnúp og í Skálholti. Lægstur var meðalhitinn 1,5 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,2 stig á Rauðanúpi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,3 stig við Skarðsfjöruvita 12. júní. Mest frost mældist -6,6 stig á Gagnheiði 1. og 2. júní.

Nánar má lesa um veðrið í júní hér.

mbl.is