„Nýtti aðstöðu sína til illverka“

mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt erlendan karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir gróft kynferðisbrot, en maðurinn nauðgaði konu á salerni skemmtistaðar í desember. Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi verið starfsmaður staðarins og að ásetningur hans hafi verið einbeittur.

Maðurinn, Mahdi Soussi, var enn fremur dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur.

Héraðssaksóknari ákærði Soussi fyrir nauðgun í mars sl. Fram kemur að hann hafi, aðfaranótt 16. desember í fyrra, þvingað konuna til samræðis og notfært sér það að konan gat ekki spornað við árásinni sökum áhrifa áfengis. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 27. júní, að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu um nóttina, að ungri konu hefði verið nauðgað á salerni skemmtistaðar í Reykjavík. Þegar lögreglan kom á staðinn var konan í miklu uppnámi. Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og tekin af honum skýrsla. Maðurinn neitaði sök og við aðalmeðferð málsins kaus hann að gefa ekki skýrslu.

Héraðsdómur segir að framburður Soussi á rannsóknarstigi hafi ekki verið stöðugur. Þannig hafi skýringar hans á veru hans á salerninu með konunni ekki verið á einn veg. Héraðsdómur mat því skýringar hans ótrúverðugar sem hafi ekki fengið stoð í gögnum málsins, ummerkjum á vettvangi eða framburðum vitna. 

Aftur á móti hafi framburður konunnar verið staðfastur og einkar trúverðugur. Hann hafi enn fremur í öllum meginatriðum verið stöðugur frá því hún tjáði sig fyrst á vettvangi.

Héraðsdómur sakfelldi því manninn fyrir gróft kynferðisbrot. Við ákvörðun refsingar var til þess litið að maðurinn var starfsmaður á skemmtistað þar sem konan taldi sig vera óhulta. „Nýtti hann aðstöðu sína til illverka og var ásetningur hans einbeittur,“ segir í dómnum.

Þá er tekið fram að árásin hafi valdið konunni mikilli vanlíðan sem hún glími enn við. Var maðurinn því dæmdur í þriggja ára fangelsi og gert að greiða tvær milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert