Ótækt að kyrrsetja eignir fyrrverandi

Landsréttur staðfesti kyrrsetningarkröfu sýslumanns, rétt eins og héraðsdómur hafði gert.
Landsréttur staðfesti kyrrsetningarkröfu sýslumanns, rétt eins og héraðsdómur hafði gert. mbl.is/Hanna

Það er algjör tímaskekkja og gengur þvert á hugmyndir löggjafans að kyrrsetja eignir konu, vegna rannsóknar á skattalagabrotum fyrrverandi eiginmanns hennar, þegar hún hefur ekki réttarstöðu grunaðs. Þetta segir Ásta Kristjánsdóttir, lögmaður konunnar, í samtali við mbl.is.

Landsréttur staðfesti í dag ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetja nær allar eignir konu, að verðmæti um 100 milljónir króna, til að tryggja að eitthvað fáist upp í væntar kröfur á hendur fyrrverandi eiginmanni hennar, sem grunaður er um skattalagabrot.

Hin meintu brot áttu sér stað árin 2011 til 2016, en hjónin skildu árið 2013. Rannsókn hófst árið 2017 og voru 327 milljóna króna eignir mannsins kyrrsettar sama ár að beiðni skattrannsóknarstjóra.

Ásta Kristjánsdóttir, lögmaður konunnar.
Ásta Kristjánsdóttir, lögmaður konunnar. Ljósmynd/Aðsend

Þegar málið vatt upp á sig var ljóst að sú trygging dygði ekki fyrir mögulegum skattsvikum og sektargreiðslum og samþykkti sýslumaður í árslok 2018 að kyrrsetja eignir að verðmæti 1.200 milljónir til viðbótar. Engar eignir fundust þó hjá manninum fyrir þeim kröfum og fór skattrannsóknarstjóri þess á leit við sýslumann að eignir fyrrverandi eiginkonu hans yrðu kyrrsettar enda beri hjónin fyrrverandi sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum fyrirtækisins árin 2011 til 2013, meðan þau voru enn í hjónabandi. Um 100 milljóna króna eignir konunnar, hús og verðbréf að verðmæti 15 milljónir, voru því kyrrsettar í árslok 2018.

Trygging fyrir hennar hlut þegar til staðar

Ásta segir ákvörðunina sérstaka í ljósi reglna um greiðsluforgang frá 2016. Þar sé kveðið á um að elstu kröfur gangi fyrir þegar eignir í búi ganga ekki upp í heildarkröfur. Ljóst sé að þær 327 milljóna króna eignir mannsins, sem þegar hafa verið kyrrsettar, gangi að öllu leyti upp í skattakröfur áranna 2011-2013, sem þau tvö beri sameiginlega ábyrgð á. Þá beri hún ekki ábyrgð á sektargreiðslum enda ekki aðili málsins. Væntar sektargreiðslur eru bróðurpartur þeirrar fjárhæðar sem skattrannsóknarstjóri leggur til grundvallar kyrrsetningarkröfunni, um 800 milljónir af 1.200, en afgangurinn meint skattaundanskot.

Því ætti aldrei að koma til þess að konan þurfi að greiða nokkuð af þeim kröfum úr eigin vasa.

„Það er afar harkaleg aðgerð að fara í svona íþyngjandi þvingunarúrræði,“ segir hún og bætir við að það sé ömurleg niðurstaða gagnvart fyrrverandi mökum grunaðra. Konan hafi sjálf ekki vitað að eiginmaðurinn fyrrverandi væri til rannsóknar fyrr en sýslumaður dúkkaði upp í desember í fyrra með kyrrsetningarkröfu á hendur henni. Ekki er heimild til að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar og því gerir Ásta ráð fyrir að konan þurfi að una úrskurðinum að sinni.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eignir sennilega kyrrsettar fram á næsta ár

Von er á ákæru í skattamálinu í haust og gæti niðurstaða legið fyrir á næsta ári. Komi til sakfellingar mannsins muni þó reyna á lögin um greiðsluforgang og segir Ásta borðleggjandi að ekki verði gengið á eignir konunnar af fyrrgreindum ástæðum. Því þjóni kyrrsetning á eignum hennar engum tilgangi. Þessum puntki hafi Ásta komið dómnum í skilning um.

Í rökstuðningi ríkisskattstjóra er því hins vegar haldið fram að kyrrsetning eigna konunnar sé einungis gerð vegna væntanlegra skattakrafna áranna 2011 og 2012. Skattaskil mannsins séu enn í rannsókn og því óvíst hver væntanleg skattkrafa verður og hvernig hún skiptist á milli ára. Á þetta féllst dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka