Rannsókn á afskiptum lögreglu lokið

Konan lést eftir að lögregla hafði verið kölluð til í …
Konan lést eftir að lögregla hafði verið kölluð til í samkvæmið. mbl.is/Eggert

Héraðssaksóknari hefur lokið rannsókn á aðdraganda dauða ungrar konu, sem lést á Landspítala í apríl eftir afskipti lögreglu. Hún hafði þá farið í hjartastopp. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir að ákvörðun um ákæru muni vonandi liggja fyrir á næstu vikum. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Málið kom inn á borð héraðssaksóknara nokkrum dögum eftir andlátið en foreldrar konunnar, sem er fædd árið 1994, voru ósáttir við meðferð lögreglu á dóttur þeirra. Konan var í samkvæmi þar sem mikið var um eiturlyf og var hún í miklu ójafnvægi þegar lögregla var kölluð til. Eft­ir að lög­regl­an hafði af­skipti af henni fór hún í hjarta­stopp og hóf­ust end­ur­lífg­un­ar­tilraun­ir. Kon­an var flutt á Land­spít­al­ann og lést þar á þriðju­dags­morg­un, 9. apríl.

For­eldr­ar kon­unn­ar segja hana hafa verið í geðrofi vegna neyslu en að lög­regl­an hafi hand­járnað hana og bundið á fót­um. Slíkt eigi ekki að gera við fólk í neyslu, held­ur sprauta niður. Grun­ur leik­ur á að kon­an hafi verið und­ir áhrif­um kókaíns.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í samtali við mbl.is í apríl að mál af þessu tagi væru sem betur fer fátíð en byggt sé inn í löggjöf að rannska skuli mál þar sem fólk lætur lífið eða verður fyrir verulegum líkamsmeiðingum sem geta tengst störfum lögreglu, „burt­séð frá því hvort grun­ur er um refsi­vert at­hæfi eða ekki“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert