Þurftu gögn frá Bandaríkjunum

Frumrannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á slysinu í Múlakoti er enn í …
Frumrannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á slysinu í Múlakoti er enn í gangi. Þá er rannsókn hafin á flakinu, en vélin var skráð í Bandaríkjunum og hefur þurft að kalla eftir upplýsingum frá þarlendum yfirvöldum.

Flugvélin sem brotlenti í Múlakoti í síðasta mánuði var skráð í Bandaríkjunum og hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa þurft að kalla eftir upplýsingum frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Þá er rannsókn á flakinu hafin, en ekki lokið, að því er fram kemur í samtali mbl.is við Ragnar Guðmundsson, rannsakanda á flugsviði nefndarinnar.

„Við erum byrjaðir að rannsaka flakið, en því er ekki lokið. Rannsókn á flakinu, það er talsvert langt í land þar,“ svarar Ragnar spurður um stöðu rannsóknarinnar. Þá segir hann frumrannsókn slyssins, sem varð hjónum og syni þeirra að bana, enn í gangi.

Skráð í Bandaríkjunum

„Flugvélin var ekki skráð á Íslandi, hún er á bandarískri skráningu,“ segir Ragnar. Spurður hvort skráning vélarinnar hafi lengt tíma sem tekur að safna gögnum fyrir frumrannsóknina, segir hann svo vera.

„Já, við erum komin með ákveðnar upplýsingar sem við vorum að fá í hendurnar frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Eins og ég segi er þetta frumrannsókn og erum í þessari gagnaöflun og svo þarf að fara yfir það allt saman,“ svarar hann og bendir á að í framhaldi af frumrannsókn hefjist hin eiginlega rannsókn þar sem greining gagna og úrvinnsla fer fram.

Hafa ekki tekið afstöðu til bráðabirgðaskýrslu

Á vef rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að nefndin geti gefið út skýrslu þar sem bráðabirgðaniðurstöður eru birtar. Er slík bráðabirgðaskýrsla birt um mánuði eftir vettvangsrannsókn, sem sagt er fyrsta stig rannsóknar eftir að tilkynning berst.

„Það hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort gefin verður út bráðabirgðaskýrsla. Nefndin hittist síðari hluta júlímánaðar og tekur þá ákvörðun um hvað hún hyggst gera,“ segir Ragnar og bætir við að það sé mjög sjaldan sem slík skýrsla er gefin út. „Við gerum það ekki nema talin sé brýn þörf á því að miðla upplýsingum.“

Hann segir að ekki megi búast við því að nokkuð verði gert opinbert um slysið á næstunni verði ákveðið að gefa ekki út bráðabirgðaskýrslu.

„En eins og ég segi er ekki búið að taka ákvörðun um bráðabirgðaskýrsluna. Annars er málið bara í þessum hefðbundna farvegi, það er frumrannsókn í gangi. Við höfum verið að safna að okkur hinum og þessum gögnum,“ bætir Ragnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert