Andlát: Birna Sif Bjarnadóttir

Birna Sif Bjarnadóttir.
Birna Sif Bjarnadóttir.

Birna Sif Bjarnadóttir skólastjóri Ölduselsskóla í Reykjavík er látin. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu síðastliðinn fimmtudag, 27. júní.

Birna Sif var fædd í Reykjavík 2. september 1981, dóttir Bjarna Þ. Bjarnasonar og Sigríðar Ólafsdóttur. Hún lauk M.Ed.-gráðu frá Háskóla Íslands í uppeldis- og  menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana. Einnig sótti hún fjölmörg námskeið og ráðstefnur, innan lands sem utan, og var virk í ýmsu félagsstarfi sem tengdist starfi hennar.

Í um tíu ár starfaði Birna Sif sem  grunnskólakennari við Ölduselsskóla. Þaðan fór hún í Flataskóla í  Garðabæ þar sem hún starfaði sem  deildarstjóri einn vetur. Eftir það var hún vetrarlangt aðstoðarskólastjóri í Breiðholtsskóla. Loks tók hún svo við starfi skólastjóra Ölduselsskóla á síðasta ári.

Eftirlifandi eiginmaður Birnu er Bjarki Þórarinsson byggingartæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti. Þau eignuðust þrjár dætur: Ronju Rut sem er fædd 2008, Birgittu Sigríði sem er fædd 2011 og yngst er Birta Dís fædd 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert