FME bregst við afturköllun VR

Unnur Gunarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Unnur Gunarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Fjármálaeftirlitið

Fjármálaeftirlitið hefur sent dreifibréf til stjórna lífeyrissjóða landsins þar sem því er beint til stjórnanna að taka samþykktir sjóðanna til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem hafa verið kjörnir eða tilnefndir í stjórnir sjóðanna.

Kemur þetta til vegna deilna sem staðið hafa varðandi afturköllun VR á umboði til stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verslunarmanna, en stjórn sjóðsins ákvað að hækka vexti á verðtryggðum sjóðslánum sem meðal annars nýtast til húsnæðiskaupa. Hefur Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, harðlega gagnrýnt þá ákvörðun og samþykkti fulltrúaráð VR í kjölfarið að afturkalla umboðið.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og Félag atvinnurekenda hafa öll gagnrýnt afskipti Ragnars og fulltrúaráðsins, en auk þess hefur Ólafur Reimar Gunnarsson, fráfarandi stjórnarformaður lífeyrissjóðsins, sagt sig úr stjórn VR vegna málsins. Sagði hann illa að sér og öðrum stjórnarmönnum sem VR tilefndi í stjórnina vegið. Ragnar Þór hefur hins vegar hafnað gagnrýni atvinnurekenda og sendi VR frá sér tilkynningu þar sem spurt var hvort FME hygðist gæta hagsmuna lántakenda með sama hætti og eftirlitið gætir hagsmuna fjármagnseigenda.

Bent er á að í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða komi fram að í samþykktum lífeyrissjóða skuli kveðið á um hvernig vali stjórnarmanna og kjörtímabili þeirra skuli háttað. Hins vegar komi ekki fram hvernig að tilnefningu eða kjöri skuli staðið eða hvort afturköllun sé heimil, en slíkt kemur skýrt fram í lögum um hlutafélög.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Segir Fjármálaeftirlitið að samþykktir lífeyrissjóða séu almennt hljóðar um hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. „Óskýrar samþykktir hvað þetta varðar gera ferli við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt,“ segir í tilkynningu frá eftirlitinu.

Segir Fjármálaeftirlitið að afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sem byggi á ósætti tilnefningaraðila við einstakar ákvarðanir stjórnar geti „talist tilraun til beinnar íhlutunar í stjórnun lífeyrissjóða, sem með óbeinum hætti færir ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Slíkt vegur að sjálfstæði stjórnar og gengur í berhögg við almenn sjónarmið um góða stjórnarhætti.“

Segir eftirlitið að við endurskoðun á samþykktunum þurfi að taka mið af góðum stjórnarháttum og tryggja að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða verði ekki skert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert