Kölluð negríti í kerfinu

Eva Þóra Hartmannsdóttir
Eva Þóra Hartmannsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Evu Þóru Hartmannsdóttur brá í brún í mæðravernd á dögunum, þangað sem hún var komin í 25 vikna meðgönguskoðun. Í kerfi mæðraverndar var á skrá „Kynþáttur: Negríti“. 

Eva, sem er af afrískum ættum og dökk á hörund, segist aldrei fyrr né síðar hafa heyrt þetta orð, en ekki sé annað hægt en að verða hugsað til niðrandi orðsins negri. Hún tekur fram að ekki sé við ljósmóður að sakast, enda hafi þessar upplýsingar bara verið fyrirfram skráðar inn í kerfið á sama stað og nafn, kyn, fæðingardagur og fleiri persónuupplýsingar.

Eva er fædd í Suður-Afríku, en var ættleidd af íslenskum foreldrum þriggja mánaða gömul.

„Fyrir það fyrsta veltir maður fyrir sér tilgangnum með því að flokka fólk eftir litarhafti,“ segir Eva. Þurfi á annað borð að gera það ætti að nægja að geta bara upprunalands fólks, eða allavega að nota nútímalegri hugtök.

Eva furðar sig á að negríti, sem skilar aðeins 60 niðurstöðum á Google, hafi orðið fyrir valinu sem besta leiðin til að lýsa þeldökku fólki. Kerfið sem um ræðir hafi nefnilega verið tekið í gagnið í fyrra og því ljóst að einhver hefur forritað það nýlega. Þó veki einnig athygli að hvítt fólk sé í kerfinu kallað „Kákasíti“ (fjöldi Google-niðurstaða áður en þessi frétt er birt: 2). Því sé ljóst að gömul og úrelt orð hafi orðið fyrir valinu í kerfi mæðraverndar. Eva vonast til að umræðan verði til þess að þessu verði breytt.

Eva er annars ekki heilbrigðiskerfinu ókunn. Hún er hjúkrunarfræðinemi og vinnur sem slíkur á Landspítala en hefur áður starfað sem sjúkraliði á blóðlækningadeild. Hún ber spítalanum að öðru leyti söguna vel, og segir þetta atvik einsdæmi í hennar samskiptum við spítalann.

mbl.is

Bloggað um fréttina