Mesta veðrið upp úr hádegi á morgun

mbl.is/​Hari

„Við gætum séð haglél eða heyrt einhverjar þrumur,“ segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um veðrið á morgun. Skúrirnar byrja í fyrramálið, hitt tekur tíma að byggjast upp og mestu demburnar verða um og upp úr hádegi á morgun. Jafnvel haglél. 

Þetta verður mest á suðvesturhorninu. Þar ætti þó síðdegis að snúast í norðanátt, stytta upp og létta jafnvel til. Áfram verður rigning á Norður- og Austurlandi.

Það verður sem sagt mikil rigning um miðjan dag á morgun, hugsanlega með tilheyrandi eldingum og hagléli.

Þetta stafar að sögn veðurfræðings af lægð sem liggur núna á milli Íslands og Grænlands en er á leiðinni yfir landið. Þá mætast heitt loft af hafi og kalt loft úr lægðinni og þá myndast óstöðugleiki sem veldur mikilli úrkomu. 

Föstudagur, laugardagur og sunnudagur gætu orðið góðir sunnan- og vestanlands og það er mikil sól í spánni fyrir laugardaginn. Norðanáttin verður þó ráðandi þannig að hiti verður ekki mjög mikill. Það verður skýjað á Norður- og Austurlandi en „sést líklega til sólar í höfuðborginni um helgina“ segir veðurfræðingur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert