„Þetta var hræðileg ákvörðun“

Kristófer Júlíus Leifsson, einn stofnenda Eldum rétt, segir það hafa …
Kristófer Júlíus Leifsson, einn stofnenda Eldum rétt, segir það hafa verið hræðilega ákvörðun að leita til Manna í vinnu. Jafnframt sé það vilji fyrirtækisins að greiða starfsmönnum sem hjá þeim störfuðu það sem þeim ber. Ljósmynd/Eldum rétt

„Við viljum virkilega tryggja að þeir fái það sem þeim ber,“ segir Kristófer Júlíus Leifsson, einn stofnenda Eldum rétt, í samtali við mbl.is um að fyrirtækið hafi hafnað því að gangast við kröfu Eflingar um að ábyrgjast laun fjögurra starfsmanna sem unnu hjá Eldum rétt í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Hann segir ákvörðunina um að leita til starfsmannaleigunnar hafa verið hræðilega.

Kristófer segir Eldum rétt algjörlega reiðubúið til þess að greiða fjórum starfsmönnum það sem þeir áttu að fá greitt, hins vegar krefst Efling greiðslu fullra launa fyrir um tvær vikur á meðan umræddir starfsmenn störfuðu aðeins því sem nemur rúmum fjórum dögum. Var fyrirtækinu jafnframt ráðlagt af lögmönnum að greiða ekki kröfu Eflingar.

Þá gerir hann einnig athugasemd við vinnulag Vinnumálastofnunar í ljósi þess að Menn í vinnu var með gilt rekstrarleyfi og gat sýnt fram á að kröfur stofnunarinnar væru uppfylltar.

„Okkar orðspor skiptir okkur öllu máli og leggjum áherslu á að gera hlutina rétt. Ein svona frétt gæti algjörlega grandað fyrirtækinu, þannig að við erum ekki að leika okkur með eldinn þarna. Við viljum tryggja að það sé rétt gengið frá þessu, gert á réttum forsendum,“ segir stofnandinn.

Lausn við álagi

Kristófer segir Eldum rétt byggja starfsemi sína á fastráðningu starfsmanna og voru þeir 34 í janúar og meðalstarfsaldur þeirra í kringum þrjú ár. Það hafi verið leitað til Manna í vinnu vegna skyndilegra breytinga hjá fyrirtækinu.

„Það kemur þarna mikill álagspunktur eftir jólafrí og þrefaldast salan frá síðustu viku í desember og á fyrstu tveimur þremur vikum í janúar. Þetta gerist svo hratt, okkur fannst rétt að fá auka hendur með þessum máta,“ útskýrir hann. „Kröfubréfið sem okkur berst frá Eflingu er fyrir fjóra starfsmenn sem við fengum frá Mönnum í vinnu í janúar.“

Eldum rétt var eina fyrirtækið sem ekki gekkst við keðjuábyrgð …
Eldum rétt var eina fyrirtækið sem ekki gekkst við keðjuábyrgð sinni. mbl.is/​Hari

„Svo spyr maður sig, þetta var hræðileg ákvörðun í ljósi Kveiksumfjöllunarinnar 2018 – og það kemur í ljós að það var vissulega slæm ákvörðun – en ákvörðunin var byggð á því að ef það væri rétt að menn hefðu verið í nauðungarvinnu þá hefði einfaldlega verið búið að svipta þá starfsleyfi,“ segir Kristófer.

„Á móti gátu þeir (Menn í vinnu) sýnt fram á að þeir væru búnir að ganga frá samningum við Vinnumálastofnun um að þetta var allt upp á tíu hvað þá snertir. Með starfssamninga á öllum tungumálum, á ensku, íslensku og rúmensku. Það var ekkert vafatriði þarna til staðar. Út frá þessum forsendum fáum við þessa starfsmenn frá þeim.“

Rukka 2 vikur fyrir 4 daga

„Við viljum að þeir fái allt sem þeim ber að fá, en krafan sem við fáum í apríl frá Eflingu hljómar upp á alla frádráttarliði sem voru teknir af fyrsta launaseðli þeirra. Þetta er eitthvert tveggja vikna tímabil, þessi launaseðill. Á þessum tíma er unnið 34 klukkustundir, hver og einn, og rétt rúmir fjórir dagar. Auk frádráttarins eru fyrirframgreidd laun,“ útskýrir Kristófer.

Hann segir fyrirtækið hafa borið kröfubréf Eflingar undir lögfræðinga þess. „Þeir ráðleggja okkur að greiða þetta ekki þar sem þetta er ekki byggt á lögum, það eru aðrar forsendur sem þeir setja fram þarna.“

„Ef við hefðum átt að greiða þeim full laun fyrir þessa rúma fjóra daga hefði þetta kannski verið kostnaður upp á tvö eða þrjú hundruð þúsund krónur, sem hefði verið sjálfsagt mál að greiða. En krafan sem þeir senda okkur er upp á eina komma eitthvað milljón krónur og eins einhver mörg hundruð þúsund í lögfræðikostnað.“

Engar viðræður

Kristófer segist ekkert hafa heyrt frá Eflingu eftir að kröfubréfið var sent fyrirtækinu fyrr en því er stefnt. „Við héldum að krafan og viðræður við Eflingu – sem í raun aldrei áttu sér stað, það voru engar viðræður bara kröfubréf – við hefðum viljað finna raunverulegan grundvöll fyrir því sem þeir áttu að fá en fengu ekki.“

„En sex vikum seinna er okkur allt í einu stefnt og okkur er blandað inn í allt þetta mál sem Menn í vinnu hafa verið að standa fyrir, sem er ekki enn þá búið að rannsaka og klára fyrir dómstólum. Vinnumálastofnun kastaði þessu bara frá sér. Vinnumálastofnun sem á að tryggja að það sé allt í lagi.“

mbl.is