Búið að hækka varnargarða við Múlakvísl

Unnið hefur verið að því að hækka varnargarðana fyrir ofan …
Unnið hefur verið að því að hækka varnargarðana fyrir ofan þjóðveginn undanfarnar vikur. mbl.is/Jónas Erlendsson

Miðað við vatnsmagnið sem safnast hefur saman í sigkötlum Mýrdalsjökuls gæti hlaup í Múlakvísl á næstu vikum orðið 1/3 eða jafnvel helmingurinn af hlaupinu sem varð árið 2011, þegar brúin á þjóðveginum yfir Múlakvísl eyðilagðist.

Rafleiðni í ánni mælist nokkuð há, en sem stendur er þó allt með kyrrum kjörum, að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Framkvæmdum við varnargarða lokið

Verktakar frá Vík í Mýrdal á vegum Vegagerðarinnar hafa undanfarnar vikur unnið að því að hækka grjótvarða varnargarða sem eru fyrir ofan þjóðveginn til þess að verja hann og brúna fyrir skemmdum. Þeir voru í óðaönn við þann starfa er fréttaritari mbl.is og Morgunblaðsins á svæðinu leit við í dag og tók meðfylgjandi myndir.

Nýja brúin yfir Múlakvísl liggur hærra en þjóðvegurinn.
Nýja brúin yfir Múlakvísl liggur hærra en þjóðvegurinn. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið ráðist í þessar framkvæmdir sérstaklega út af því hlaupi sem vænst er að hefjist á næstu vikum.

„Þetta er búið að taka tvö ár í undirbúningsvinnu, það þurfti bara að hressa upp á varnargarðana og ég er mjög feginn því að það sé búið núna,“ segir Ágúst, en þeir hafa verið hækkaðir svo mikið að þeir ættu nú að standa af sér vatnsstreymið allt þar til vatn er komið alveg upp í brúargólfið.

Ef hlaupvatnið færi yfir garðana myndi þjóðvegurinn svo rofna öðru hvoru megin við brúna og ef svo færi er Vegagerðin klár í að bregðast hratt við.

Nýja brúin yfir Múlakvísl liggur hærra en þjóðvegurinn í kring og var hönnuð á þá vegu í því augnamiði að hún stæði af sér hlaup af þeirri stærðargráðu sem hrifsaði forvera hennar af stað með sér árið 2011.

Múlakvísl í dag.
Múlakvísl í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert