Ekki of seint að setja niður kartöflur

Martjurtargarðar við Þorragötu í Vesturbænum.
Martjurtargarðar við Þorragötu í Vesturbænum. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að sumarið sé hálfnað er ekki of seint að leigja sér í matjurtagarð hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og byrja að sá fyrir grænmeti og káli. Enn eru lausir garðar fyrir áhugasama meðal annars í Hafnarfirði, í Reykjavík og Mosfellsbæ. 

„Það er meiri ásókn en í fyrra þegar rigndi út í eitt og ekki margir í þessum pælingum,“ segir Bára Þorgeirsdóttir forstöðumaður Vinnuskólans í Hafnarfirði um matjurtagarða sveitarfélagsins. Þeir eru á tveimur stöðum í bænum, í Öldugötu og við Víðistaðatún.  

Til stendur að fjölga görðum í Hafnarfirði og bæta við einum á Völlunum, að sögn Báru. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nákvæmlega hvar hann verður eða hvenær hann verður settur upp. Á síðustu árum hefur verið horfið frá því að hafa garðana sem skólagarða þar sem grunnskólabörn gátu sinnt matjurtagarði yfir sumartímann. Þess í stað geta eingöngu fullorðnir sótt um garðland en fjölskyldan sameinast í ræktuninni.  

Vakning í samfélaginu og fólk vill rækta

„Mér finnst vera vakning í þessum málum og meiri umræða í samfélaginu um að rækta. Fólk vill vera meira sjálfbært," segir Bára. Hún bendir á að þó að júlímánuður sé genginn í garð sé ekki of seint að setja niður fljótsprottið grænmeti. Hins vegar verður uppskeran með seinna móti en það ætti ekki að koma að sök.

Uppskera í garðlöndum við Arnarnesveg í Kópavogi fyrir tveimur árum.
Uppskera í garðlöndum við Arnarnesveg í Kópavogi fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heiða Ágústsdóttir garðyrkjustjóri í Mosfellsbæ tekur í sama streng. Hún segir ekki of seint að hefjast handa þó vissulega sé þetta með seinni skipunum að setja niður en fyrir vikið verður uppskeran fram í september. Hnúðkál er dæmi um grænmeti sem sprettur ágætlega hratt sem og salöt. Ekki er heldur of seint að setja niður hefðbundið grænmeti eins og kartöflur og gulrætur.  

Mikið úrval og fólk tilbúið að prófa sig áfram

„Mér finnst úrvalið meira í dag en það var og fólk er tilbúið að prófa meira, allskonar matjurtir og krydd,” segir Heiða. Spurð hvernig uppskeran líti út svarar hún því til að það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif þurrkurinn frá miðjum maí og fram í júní hafi haft. Það fari alfarið eftir því hversu duglegt fólk var að vökva á þessum tíma.  

„Fólk þurfti að fara á hverjum degi og vökva garðana því það rigndi ekki neitt. Það er rétt núna að það er farið að rigna af einhverri alvöru. Núna dansa garðyrkjufræðingar regndansinn,” segir hún og brosir. 

Það er ekki of seint að setja niður kartöflur og …
Það er ekki of seint að setja niður kartöflur og grænmeti í sumar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fjölbreyttur hópur sótti um matjurtagaða í Mosfellsbæ í ár. Heiða segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart. „Það er gaman að sjá að það er ekki bara eldri kynslóðin sem setur niður grænmeti. Það er líka fullt af yngra fólki. Það er svo gott að vera úti og með puttana í moldinni. Það er svo gott fyrir sálina,” segir Heiða.

Svipuð ásókn og á síðustu árum

Í Kópavogi eru garðlönd á sex stöðum bæjarins og nýtingin er um 75%. Það er svipað hefur verið á síðustu árum. Þeir sem sækja um garðana er fólk á öllum aldri.  

„Við látum framboðið ráða eftirspurninni. Við höfum alltaf uppfyllt óskir þ.e.a.s. það er alltaf hægt að fá garð," segir Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar.    

Flestir vilja rækta í Fossvogi en þar eru tveir garðar. Annar er við Snælandsskóla og hinn fyrir neðan Kjarrhólma og þeir garðar eru með um 90% nýtingu.

Ræktunarkassar í Logafold

Í matjurtagarðinum í Logafold í Grafarvogi í Reykjavík var í fyrsta skipti boðið upp á rækt­un­ar­kass­ar svo fólk þurfi ekki að bogra niðri við jörð, flest­ir eru kass­arn­ir 40 cm háir, en hluti þeirra eru 70 cm á hæð. 

Sá matjurtagaður er einn af þremur í Reykjavík þar sem myndast biðlisti umsækjenda en hinir eru í Logafold í Laugardalnum og við Þorragötu í Vesturbænum. Örlítið færri óskuðu eftir að leigja matjurtagarð í Reykjavík á þessu ári en á því síðasta, í ár voru umsóknirnar 263 talsins en voru 274 í fyrra.

Garðarnir eru misstórir frá 10 - 25 fermetrum að stærð og kosta á bilinu 1.500 krónum til 5.200 króna. Í Hafnarfirði kostar 10 fermetra garður 1.500 krónur. Flesta garðana er búið að forplægja og fjarlægja stórt grjót. Á flestum stöðum geta notendur einnig fengið afnot af garðáhöldum sem eru á staðnum.  

Matjurtagarðurinn við Þorragötu í Vesturbænum er vinsæll og eru öll …
Matjurtagarðurinn við Þorragötu í Vesturbænum er vinsæll og eru öll beð frátekin. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Matjurtirnar vaxa og dafna undir dúk við Þorragötu.
Matjurtirnar vaxa og dafna undir dúk við Þorragötu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert