Fasteignagjöld í krónum hækka

Fasteignaskattar skila sveitarfélögum auknum tekjum eftir því sem virði fasteigna …
Fasteignaskattar skila sveitarfélögum auknum tekjum eftir því sem virði fasteigna hækkar. Sömuleiðis skilar tekjuskattur meira í vasa ríkis og sveitarfélaga eftir því sem meðaltekjur í landinu hækka. mbl.is/Kristinn

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins hefur tekið saman álagningu fasteignagjalda og útsvars hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Er það niðurstaðan að fasteignagjöld í krónum hækki í flestum tilvikum milli ára þrátt fyrir að álagningarhlutfall lækki.

Skýrist það af því að fasteignagjöldin eru hlutfall af fasteignamati eignar og það hefur í flestum tilfellum hækkað milli ára.

Mestar hækkanir á Ísafirði

Álagningarhlutfall fasteignaskatta lækkar um fjórðung í Reykjanesbæ og einn sjötta hluta í Árborg. Í fjölda sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavík, Seltjarnarnesi og Ísafjarðarbæ stendur hlutfallið í stað.

Vegna mikillar hækkunar fasteignamats fyrir vestan eykst innheimtur fasteignaskattur þó mest á Ísafirði eða um 17,2% í fjölbýli og 18,8% í sérbýli. Í örfáum tilfellum vegur lækkun álagningarhlutfalls þyngra en hækkun fasteignamats, og verður það til þess að fasteignaskattar lækka í krónum talið. Á það við um Njarðvík (2,8% lækkun), fjölbýli í Mosfellsbæ (1,3% lækkun), Keflavík (1,3% lækkun) og Vestmannaeyjar (0,4% lækkun).

Misháir fasteignaskattar

Skattprósenta fasteignaskatts á almenning er eftir sem áður lægst í Reykjavík og á Seltjarnarnesi, 0,18%, en þar er fasteignaverð enda hæst. Hæst er álagningarprósentan hins vegar á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert