Ríkið hefur greitt á sjötta tug milljóna

Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ríkið hefur þurft að greiða á sjötta tug milljóna í málskostnað frá árinu 2016 þegar fyrsti dómur héraðsdóms var kveðinn upp í málinu. Í dag kom niðurstaða héraðsdóms í þriðja skiptið í málinu, en það hefur verið til meðferðar hjá dómstólum í fimm ár og til meðferðar hjá yfirvöldum frá árinu 2009 þegar rannsókn hófst.

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og eins þremenninganna sem ákærðir voru í málinu, segir að með þessari niðurstöðu vonist hann til þess að málinu sé lokið. „Það er von okkar að þetta séu endanleg lok málsins,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Klukkan hálftólf í dag var dómurinn kveðinn upp og voru þremenningarnir þar allir sýknaðir. Áður hafði héraðsdómur sýknað alla árið 2016. Nýjar upplýsingar komu hins vegar fram áður en málið var tekið fyrir í Hæstarétti um greiðslur Deutsche bank til þrotabús Kaupþings fyrir stórum hluta þeirrar fjárhæðar sem talin var hafa glatast. Ógilti því Hæstiréttur fyrri dóm og sendi í hérað. Þar vísaði héraðsdómur málinu frá. Landsréttur taldi hins vegar að héraðsdómur skildi taka málið efnislega fyrir og liggur nú niðurstaða þeirrar málsmeðferðar fyrir.

Ríkið var núna dæmt til að greiða 13,1 milljón í málskostnað vegna lögmannsstarfa þriggja verjenda málsins. „Okkur reiknast til að þetta séu á sjötta tug milljóna í málskostnað frá upphafi,“ segir Hörður Felix um heildarkostnaðinn sem ríkið hefur verið dæmt til að greiða vegna málsins.

Hann segir niðurstöðuna ánægjulega fyrir umbjóðanda sinn. „Þetta er eitthvað sem kemur okkur ekki á óvart. Áður var búið að sýkna og einu sinni vísa dómi frá,“ segir hann og bætir við að málið hafi velkst um í dómskerfinu í fimm ár.

mbl.is