Þriðjungsfækkun frá Ameríku

Einhverjir ferðamenn finnast enn á landinu.
Einhverjir ferðamenn finnast enn á landinu. mbl.is/Eggert

Þriðjungsfækkun hefur orðið á komum ferðamanna frá Norður-Ameríku á öðrum ársfjórðungi ársins í ár, samanborið við árið í fyrra.

Í apríl, maí og júní í fyrra komu hingað til lands 208 þúsund ferðamanna frá löndum Norður-Ameríku, en í sömu mánuðum í ár var fjöldinn 137 þúsund. Varla þarf að leita langt yfir skammt eftir skýringum: Wow Air var lýst gjaldþrota í mars.

Ferðamálastofa gaf í dag út tölur um talningu ferðamanna á Keflavíkurflugvelli á fyrri helmingi ársins, greint niður eftir þjóðerni. Fæst þar staðfest það sem allir þóttust svo sem vita, að gegndarlausri fjölgun ferðamanna, sem átt hefur sér stað frá árinu 2010, er lokið. Brottförum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 16,7% frá fyrri helmingi síðasta árs.

Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka er þó bent á að ljósir punktar séu í nýjum tölum af ferðamönnum. Samdráttur í kortaveltu í maí hafi aðeins verið 13,1% á sama tíma og ferðamönnum fækkaði um 23,6% fækkun erlendra ferðamanna. Því sé ljóst að meðalkortavelta aukist.

Ferðamenn dvöldu að meðaltali sólarhring lengur á Íslandi í vor …
Ferðamenn dvöldu að meðaltali sólarhring lengur á Íslandi í vor en í fyrravor. mbl.is/Eggert

Þá hefur dvalartími ferðamanna lensgt. Gistinóttum fjölgar um 19% í apríl og maí, sem jafngildir nærri sólarhringslengingu dvalartíma, það er úr fimm í sex daga. Inni í þessum tölum eru gistinætur hótela, en einnig mat á fjölda skráðra og óskráðra gistinótta til dæmis á Airbnb.

Ósjálfbær fjölgun á enda

Frá árinu 2010 hefur fjöldi erlendra gesta um Keflavíkurflugvöll rúmlega fimmfaldast, en það jafngildir um 22,4% árlegri fjölgun. Ljóst má öllum vera að slíkur veldisvöxtur er ekki sjálfbær til eilífðar. Hefði hann haldið sér á svipuðum hraða hefðu hingað komið 17,5 milljónir erlendra gesta árið 2028, og 218 milljónir árið 2038. Og upp úr 2060 væru þeir orðnir fleiri en íbúar jarðarinnar.

Kínverjum fjölgar

Gestum fækkar frá öllum þeim tíu þjóðum, sem toppa listann yfir flesta gesti, nema frá Kína. Kínverskur ferðamönnum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og gerir enn. Rúmlega 38.000 Kínverjar sóttu landið heim á fyrrihluta árs, 12,7% fleiri en á fyrri helmingi ársins í fyrra.

Þrátt fyrir fjórðungsfækkun eru flestir ferðamenn sem fyrr frá Bandaríkjunum, þaðan sem 210.000 gestir komu frá janúar fram í júní. Því næst fylgja Bretland, Þýskaland og Pólland, en Þjóðverjum og Pólverjum fækkar einungis lítillega ólíkt Bretum sem fækkar um 11,8%.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert