Alþingi á Manarþing á ný

Tynwald-hæð á eyjunni Mön. Þingið er sett utandyra.
Tynwald-hæð á eyjunni Mön. Þingið er sett utandyra. Ljósmynd/Richard Hoar

Alþingi tekur nú þátt í setningu Manarþings í fyrsta sinn síðan 2009 þegar þátttakan var aflögð í kjölfar efnahagshruns. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var á leið sinni til eyjunnar Manar þegar blaðamaður náði tali af honum í gær.

„Tengslin á milli Alþingis og Manarþings eru þá að komast á aftur og það má segja að það hafi byrjað á því að við buðum forseta Manarþings til hátíðarhaldanna [vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands] í fyrra í ljósi þess að það eru löng söguleg tengsl á milli þessara þinga, Tynwald og Alþingis,“ segir Steingrímur í Morgunblaðinu í dag.

Margt tengir Ísland og eyjuna Mön, að sögn Steingríms.

„Sögulegar rætur liggja saman. Þótt þeir séu talsvert minni en við og auðvitað sjálfstjónarsvæði þá eru þeir samt sjálfstæðir í sínum málum og hafa haldið sérstakri stöðu innan bresku krúnunnar. Þeir eru í raun ekki hluti af Stóra-Bretlandi heldur eiga þeir í sérstöku sambandi við krúnuna. Það er sumpart líkt okkar stöðu á milli 1918 og 1944. Bretar sjá um varnarmál og eiga að gæta hagsmuna Mana í utanríkismálum en Manar eru í raun alveg sjálfráða um sín innri mál,“ segir Steingrímur sem bætir því við að Manarþing og Alþingi séu uppbyggð á svipaðan hátt en þingin voru stofnuð á svipuðum tíma.

Steingrímur segir líklegt að Alþingi muni senda fulltrúa á setningu þingsins framvegis. ragnhildur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert