Breytingar á Bessastöðum

Til stendur að gera breytingar á bílastæðamálum og aðkomu að …
Til stendur að gera breytingar á bílastæðamálum og aðkomu að Bessastöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bílastæði norðan og vestan Bessastaðakirkju verða flutt yfir á túnið norðan við núverandi heimreið og fjær forsetasetrinu. Þar eiga að verða um 110 bílastæði sem munu hafa grænt yfirbragð og ætlað að vera áfram hluti af túnum Bessastaða. Þá verður öryggishlið að forsetasetrinu fært fjær byggingunum.

Breytingartillaga á deiliskipulagi bæjarins þess efnis var lögð fram í skipulagsnefnd Garðabæjar í gær. Markmið breytinganna er að sögn að bæta öryggi og aðgengi ferðamanna og annarra sem sækja Bessastaði heim.

Breikkun heimreiðarinnar að Bessastöðum sumarið 2018 var stöðvuð þegar fornar minjar og mannvistarleifar komu í ljós við jarðraskið. Var því ráðist í fornleifaúttekt á svæðinu nú.

Á svæðinu sem framkvæmdir fóru fram á og breytingartillaga deiliskipulags tekur til, voru þekktar fornleifar; bæjarstæði Lambhúsa, túngarður Lambhúsa, stjörnuathugunarstöðin, skólavegurinn, garðlag og fornleifar sem fundust við rannsókn 1998, að því er fram kemur í úttektinni.

Svæðið sem breytingin nær til er talsvert minna en fyrri tillögur gerðu ráð fyrir, en það fer nú til auglýsingar þar sem leitað verður umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar og veitufyrirtækja í samræmi við skipulagslög.

Uppdráttur af fyrirhuguðu svæði.
Uppdráttur af fyrirhuguðu svæði. Teikning/Garðabær
mbl.is