„Exótískur“ meirihluti taktlaus

Exótískar hugmyndir meirihlutans í Reykjavíkurborg eru úr takt við allan raunveruleika og svo virðist sem fulltrúa meirihlutans langi að búa annars staðar en á Íslandi, segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur samþykkti í gær nýtt deiliskipulag fyrir Stekkjarbakka þar sem gert er ráð fyrir bílastæðum, gróðurhúsi og verslunarrými.

Málið fór í gegn þrátt fyrir mikla andstöðu minnihlutans í borgarráði, sem samanstendur af þremur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokssins. Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins, Flokk fólksins og Sósíalistaflokks Íslands gagnrýndu málsmeðferð meirihlutans einnig harðlega.

Margir íbúar á svæðinu og Hollvinasamtök Elliðaárdals hafa einnig mótmælt fyrirhugaðri uppbyggingu og í gær sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að Umhverfisstofnun hafi gert fjölþættar athugasemdir við uppbygginguna.

Hún bætti því við að þeim athugasemdum hefði ekki verið svarað og að borgin hafi ekki fundað með Umhverfisstofnun.

Meirihlutinn eins og tvíhöfða þurs

„Ég fordæmi þetta náttúrulega. Það er alltaf verið að tala um að við þurfum að gera betur í umhverfismálum og hlífa náttúrunni en svo er farið að stað með þetta verkefni. Maður áttar sig ekki á því hvert meirihlutinn er að fara,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is og bætir við:

„Þetta virkar eins og tvíhöfða þurs. Það er talað um að friða náttúruna og gera betur í umhverfismálum en svo er þetta samþykkt. Þetta er í anda þessarar þrengingarstefnu sem meirihlutinn stendur fyrir, að útrýma grænum svæðum í borginni.“

Hún segir aðgerðir meirihlutans algjörlega á öndverðum meiði við loforð þeirra.

Íbúasamtök ætla að knýja í gegn íbúakosningu

Fulltrúar meirihlutans sem hafa viljað tjá sig um málið þær Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Pírata, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, segja að deiliskipulagið sem samþykkt var í gær sé töluvert breytt frá upphaflegu deiluskipulag og tekið hafi verið tillit til athugasemda íbúa og annarra.

„Það er ekki búið að taka meira tillit til athugasemda en það að íbúarnir á þessu svæði eru að fara af stað með undirskriftasöfnun til þess að knýja á um íbúakosningu til friðunar Elliðaárdalsins á þessu svæði,“ segir Vigdís sem gefur lítið fyrir orð fulltrúa meirihlutans.

Eins og meirihlutinn vilji ekki búa á Íslandi

Hún segir að þarna eigi að reisa stórt exótísk gróðurhús sem muni valda ljósmengun og sé úr takti við allan raunveruleika, „svona í stíl við pálmatrén í Vogunum.“ Aðgerðir meirihlutans gangi þvert á fyrri loforð.

„Það er verið að reyna búa til exótíska stemningu í glerhjúpum sem á frekar skylt við suðræn lönd. Það er eins og þessu fólki langi að búa annars staðar en á Íslandi og eins og það sé ekki viðurkennt að við búum á norðlægum slóðum,“ bætir hún við að lokum.

Samstaða minnihlutans þvert á flokka

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði mótmæltu málinu harðlega eins og fyrr segir. Vigdís er áheyrnarfulltrúi Miðflokksins á fundum borgarráðs og hún lagði fram harðorða bókun í gær þar sem hún mótmælti og sagði málið „óásættanlegt.“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, er sömuleiðis áheyrnarfulltrúi í borgarráði og í samtali við mbl.is sagði hún það vera takt meirihlutans að læðast með hlutina og keyra þá í gegn.

Þá lagðist Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins og áheyrnarfulltrúi í borgarráði, alfarið gegn fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu og lagði fram bókun um það.

Einhvern veginn svona á gróðurhúsið að líta út.
Einhvern veginn svona á gróðurhúsið að líta út. Ljósmynd/WilkinsonEyre
mbl.is