Fjölskyldunum verði ekki vísað burt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, gaf í dag út breytingarreglugerð á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga þar sem kveðið er á um að Útlendingastofnun sé nú heimilt, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en tíu mánuðir liðnir frá því umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs.

Bræðurnir Mahdi og Ali Sarwary falla þegar undir nýmælin enda komu þeir til landsins 2. ágúst 2018 að sögn Magnúsar Davíðs Norðdahl, lögmanns bræðranna og fjölskyldna þeirra. „Á grundvelli þessarar reglugerðar munum við sækja um efnismeðferð fyrir þá strax á mánudagsmorgun,“ segir hann, en Magnús Davíð er einnig lögmaður Zainab Safari og fjölskyldu.

„Zainab og fjölskylda uppfylla skilyrðin næstkomandi miðvikudag og þá munum skila inn beiðni fyrir þau. Báðar fjölskyldur eru öruggar og verða ekki fluttar úr landi,“ segir Magnús Davíð.

Báðar fjölskyldur ánægðar og hamingjusamar

Í efnismeðferð fyrir útlendingastofnun felst að mál barnanna verður tekið fyrir efnislega. Hingað til hafa aðstæður þeirra verið metnar þannig að þar sem þau höfðu fengið dvalarleyfi í Grikklandi yrði ekki fjallað um mál þeirra hér.

„Þau fengu ekki efnismeðferð og ekki var litið til aðstæðna þeirra í heimalandi þeirra,“ segir Magnús Davíð. „Nú fá þau slíka meðferð og þá taka lögmenn Rauða krossins við málinu á ný og fylgja því eftir,“ segir hann, en heimaland fjölskyldnanna er Afganistan. „Ég held það sé borðliggjandi að báðar fjölskyldur fái alþjóðlega vernd enda fengu þau alþjóðlega vernd í Grikklandi,“ segir Magnús Davíð sem hefur heyrt í fjölskyldunum báðum.

„Þetta eru einkar ánægjuleg tíðindi. Ég hef heyrt í báðum fjölskyldunum og það eru allir afskaplega ánægðir og hamingjusamir með þessi málalok,“ segir hann.

Mbl.is ræddi við Asadullah Sarawy, föður drengjanna, fyrr í dag áður en reglugerðarbreytingin lá fyrir. Hann lýsti þeirri óvissu sem feðgarnir hafa upplifað undanfarna daga og lýsti yfir þakklæti til þeirra sem studdu fjölskylduna, meðal annars þeirra sem mættu á fjölmenn mótmæli í gær. Viðtalið má sjá í myndskeiði efst í fréttinni. 

mbl.is