Skráningu „negríta“ hætt

Ný uppfærsla af sjúkraskrá fór í loftið í mars en …
Ný uppfærsla af sjúkraskrá fór í loftið í mars en enn eiga einhverjar deildir eftir að uppfæra kerfið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skráningu á kynþætti kvenna í sjúkraskrá hefur verið breytt og eru konur af afrískum uppruna nú ekki lengur kallaðar „negrítar“ heldur einfaldlega sagðar „af afrískum uppruna“.

Breytingin var raunar gerð í mars, en svo virðist sem enn hafi átt að taka uppfærsluna í gagnið á einhverjum stofnunum. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítala í samtali við mbl.is.

Nauðsynlegt sé að halda utan um uppruna kvenna svo hafa megi til hliðsjónar sérstaka áhættuþætti sem eru ólíkir eftir kynþáttum. Nefnir hún sem dæmi að meðgöngusykursýki sé algengari hjá konum sem ekki eru hvítar.

Flokkarnir fjórir, sem skráðir voru í sjúkraskrána voru: Kákasítar, af evrópskum og arabískum uppruna, Asíubúar, „negrítar“ og aðrir.

Eva Þóra Hartmannsdóttir hjúkrunarfræðinemi vakti máls á því um helgina að hún hefði, í 25 vikna meðgönguskoðun í síðasta mánuði, verið skráð í flokkinn „negríti“. Brá henni í brún enda hafði hún aldrei nokkurn tíma heyrt það hugtak og sagðist ekki tengja það við neitt nema níðyrðið negri.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, segir ljóst að þessi orð hafi borist hingað úr erlendri flokkun, enda sé Caucasian vel þekkt í ensku máli. Þó megi ætla að flokkunin sé gömul enda löngu liðinn siður að tala um svart fólk sem negra – eða eitthvað þvíumlíkt – í ensku. Slíkt þyki niðrandi. Sjálfur hafði hann aldrei heyrt orðið negríti notað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert