Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands …
Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Karlmaður á fertugsaldri var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra í síðasta mánuði fyrir nauðgun. Brot mannsins átti sér stað í heimahúsi í janúar í fyrra.

Maðurinn var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis og vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. 

Fram kemur í dómi að konan og maðurinn hafi farið í partí í heimahúsi eftir skemmtun í miðbæ Akureyrar, þar sem þau hafi verið ásamt húsráðanda og vinkonu konunnar. 

Þar hafi hinn dæmdi verið annars staðar í íbúðinni en hin þrjú og konan fór að athuga með hann. Hann var inni á baðherberginu, þar sem hann braut á henni.

Maðurinn neitaði því að hafa brotið á konunni. Hann sagði að þau hefðu byrjað á að kyssast inni í eldhúsi, farið þaðan inn á baðherbergi þar sem þau hefðu haldið áfram að kyssast. Þannig hafi eitt leitt af öðru.

Vinkonan sagðist hafa komið inn á baðherbergið þar sem konan hafi verið í sjokki og farið að gráta. Hún hafi lýst því að allt hafi verið vont og hún hafi sagt manninum að hún hafi ekki viljað stunda kynlíf en hann hefði samt haldið áfram.

Dómurinn mat framburð konunnar trúverðugan og dæmdi manninn eins og áður segir í tveggja ára fangelsi. Honum var einnig gert að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert