Ekki haft samráð við þingmannanefnd

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra hafði ekki samráð við þingmannanefnd um útlendingamál vegna breytinga sem gerðar voru á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga í gær.

Þetta kom fram í máli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingflokksformanns Miðflokksins, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. 

„Nei, ekki að mér vitandi,“ sagði Anna Kolbrún sem á sæti í þverpólitískri þingmannanefnd um útlendingamál. 

Anna Kolbrún sagði að nefndin hefði fundað mjög stopult og að það væri full ástæða til að setja aukinn kraft í að endurvekja hana. 

Hún sagði enn fremur að það væri nokkuð merkilegt að útlendingalögin frá árinu 2016 séu að einhverju leyti úrelt og þau þurfi að laga. „Samfélagið breytist og þar með  öll heimsmyndin. Ég held að það þurfi sífellt að skoða hvernig við mætum því fólki sem er þarna úti,“ sagði Anna Kolbrún.

Hún sagði að það stæði ekki á vilja nefndarmanna, heldur væru nefndir eins og þessar einfaldlega settar til hliðar við annað starf. Þingmenn hafi lítinn kost á að búa sér til sveigjanleika til að sinna öllu sem þurfi að gera.

„Við ættum að nýta sumarið áður en þingstörf hefjast að fullu ef raunverulegur vilji er til breytinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert