Ófremdarástand gæti skapast innan skamms

Dómarar við Landsrétt í júní 2017.
Dómarar við Landsrétt í júní 2017. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

Því fer fjarri að aðeins 11 dómarar geti haft undan þannig að ekki skapist ófremdarástand innan skamms í Landsrétti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblöðum milli dómsmálaráðuneytisins og Landsréttar í í kjölfar óskar ráðherra á upplýsingum um stöðu mála við Landsrétt í ljósi þess að fjórir dómarar hafa ekki sinnt dómstörfum eftir að Landsréttarmálið komst í hámæli.

Greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV í kvöld, en fréttastofan hafði fengið afrit af bréfum milli ráðuneytisins og Landsréttar annars vegar og dómstólasýslunnar og ráðuneytisins hins vegar vegna málsins, en fyrr á árinu komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skipun dómara við réttinn hefði ekki verið í samræmi við lög.

Hugur dómaranna stendur til að koma aftur

Ráðherra óskaði upphaflega eftir því að fá tölfræðilegar upplýsingar um áhrif stöðunnar á starfsemi Landsréttar og að forseti dómstólsins myndi kanna afstöðu dómaranna fjögurra til þess hvernig þeir hyggist bregðast við annars vegar í því tilviki að yfirdeild Mannréttindadómstólsins tekur málið til endurskoðunar og hins vegar ef beiðninni verður synjað.

Í bréfi forseta réttarins, Hervarar Þorvaldsdóttur, er svarað út frá afstöðu dómaranna ef yfirdeildin muni taka dóminn til endurskoðunar.  „Af þeim samtölum verður helst ráðið að hugur þeirra standi til þess að koma þá aftur til starfa,“ segir í bréfinu. Hins vegar er ekki svarað um afstöðu þeirra ef dómurinn tekur dóminn ekki til endurskoðunar.

Ófremdarástand gæti skapast innan skamms

Skrifstofustjóri Landsréttar svarar svo fyrirspurn ráðherra um tölulegar upplýsingar varðandi stöðu dómstólsins þegar ekki tekst að vinna á fullum afköstum. Segir í bréfinu að miðað sé við að hægt sé að flytja 10 mál á viku með fullskipuðum dómstól 15 dómara. Með 11 dómara og ef miðað er við 7,5 málflutninga í viku, til viðbótar við dómsuppkvaðningar og úrskurði, þá „fer því fjarri að 11 dómarar hafi þannig undan að ekki skapist ófremdarástand innan skamms,“ segir í bréfinu. Þá er tekið fram að þessar forsendur séu jafnframt hæpnar miðað við reynsluna og að líklegra sé að færri mál verði flutt.

En miðað við forsendurnar segir skrifstofustjórinn að 10 mál muni bætast við málaskrá dómsins í hverjum mánuði þegar málflutningur fari fram, en allt að 40 þegar málflutningur eigi sér ekki stað, eins og yfir sumartímann. Miðað við þá stöðu má áætla að málsmeðferðartíminn verði orðinn ríflega eitt ár um næstu áramót og að óafgreidd mál verði 482.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Kemur til greina að skipa eða setja nýja dómara

Stjórn dómstólasýslunnar fundaði um málið og bókaði að bregðast verði við vandanum. Til greina kæmi að skipa nýja dómara við réttinn, en þá þyrfti að afla lagaheimildar. Þá væri einnig hægt að setja dómara við Landsrétt frá lokum sumarleyfa til áramóta til að tryggja full afköst. Hins vegar þyrftu þá dómararnir fjórir að vera reiðubúnir að fara í launað leyfi til áramóta. „En það skal áréttað að slíkt leyfi verður ekki veitt nema samkvæmt ósk þeirra,“ segir í bréfinu. Hervör var ein í stjórn dómstólasýslunnar sem greiddi ekki atkvæði með bókuninni, en fjórir aðrir stjórnarmenn gerðu það.

Dómararnir óska ekki eftir launuðu leyfi

Þá kemur fram að framkvæmdastjóri og formaður dómstólasýslunnar hafi fundað með dómurunum fjórum og spurt um afstöðu þeirra til að taka launað leyfi. Þrír hafi strax gefið upp að þeir óskuðu ekki að svo stöddu eftir því, en einn kvaðst innan tíðar ætla að gera grein fyrir afstöðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert