Sýna flóttabörnum samstöðu með „barnabrú“

Skipuleggjendur hvetja þátttakendur til að mæta með barnaföt, blöðrur, tuskudýr …
Skipuleggjendur hvetja þátttakendur til að mæta með barnaföt, blöðrur, tuskudýr eða leikföng á viðburðinn og mynda eins konar barnabrú um réttindi flóttabarna á göngubrúnni yfir Hringbraut. mbl.is/Þórður

Boðað hefur verið til samstöðuaðgerðar með flóttabörnum á göngubrúnni yfir Hringbraut klukkan 14 í dag. Skipuleggjendur hvetja þátttakendur til að mæta með barnaföt, blöðrur, tuskudýr eða leikföng á viðburðinn og mynda eins konar barnabrú um réttindi flóttabarna. 

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að það sé ekki boðlegt að senda flóttafólk til Grikklands, allra síst börn, og vísa þau í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

„Þetta hafa ríkisstjórnir Íslands og stjórnsýslustofnanir haft að engu þegar börn flóttafólks eru annars vegar,“ segir í tilkynningu frá blönduðum aðgerðahópi samtaka og einstaklinga, sem standa að samstöðuaðgerðinni, þar á meðal Vinum Hauks Hilmarssonar. 

Viðburðurinn er haldinn í framhaldi af umfjöllun um tvær flóttamannafjölskyldur frá Afganistan sem til stóð að vísa úr landi í síðustu viku. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir dóms­málaráðherra gaf á föstudag út breyt­ing­ar­reglu­gerð á reglu­gerð nr. 540/​2017 um út­lend­inga, og segir lögmaður fjölskyldnanna að reglugerðin tryggi veru þeirra á Íslandi. 

Skipuleggjendur viðburðarins segja að breyting dómsmálaráðherra á reglugerðinni merki ekki að börn hælisleitenda séu örugg á Íslandi og að krafan um vernd flóttabarna snúist um meira en þau fjögur börn sem hafa verið í umræðunni síðustu daga. 

„Vernd flóttabarna snýst um ábyrgð ríkisins á mannúðlegri meðferð á öllum börnum sem stödd eru í íslenskri lögsögu, ekki bara þeim sem eiga íslenska vini,“ segir í tilkynningu skipuleggjenda. 

Hér má sjá viðburðinn á Facebook

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert