16 milljóna krafa Skúla viðurkennd

Skúli Gunnar Sigfússon oft kenndur við Subway. Krafa hans í …
Skúli Gunnar Sigfússon oft kenndur við Subway. Krafa hans í bú EK1923 upp á 16 milljónir var viðurkennd af héraðsdómi.

Rétt tæplega 16 milljóna króna krafa félagsins Stjörnunnar ehf., sem er í eigu athafnamannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway, í þrotabú EK1923 var viðurkennd með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í vikunni.

Er um að ræða upphæð sem Stjarnan var dæmd til að endurgreiða EK1923 eftir að dómstólar riftu framsali á kröfu EK1923 á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar áður en félagið varð gjaldþrota. Var krafan til komin vegna ofgreiðslu gjalda til rík­is­sjóðs í tengsl­um við út­hlut­un á toll­kvót­um með útboði á ár­un­um 2014 og 2015.

Sá dómur féll í janúar 2018, en talið var að framsalið hafi falið í sér greiðslu EK1923 til Stjörnunnar með óvenjulegum greiðslueyri og að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Talsverðar deilur hafa staðið á milli Skúla Gunnars og Sveins …
Talsverðar deilur hafa staðið á milli Skúla Gunnars og Sveins Andra Sveinssonar, skiptastjóra EK1923. mbl.is/Eggert

í kjölfarið gerði Stjarnan kröfu upp á sömu upphæð í þrotabúið. Eftir mótmæli annarra kröfuhafa hafnaði Sveinn Andri kröfunni og lagði Stjarnan þá kröfuna fyrir dómstóla. Í rökstuðningnum er meðal annars vísað til þess að í riftunarmálinu hafi verið byggt á þeirri meginforsendu að Stjarnan hafi eignast kröfu á hendur EK1923 þegar framsalinu var rift. Skiptastjóri taldi hins vegar að Stjarnan hefði oftúlkað niðurstöðu dómsins um mögulega kröfu og að sanna þyrfti að Stjarnan hafi orðið fyrir tjóni vegna ofgreiddra gjalda til ríkisins.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að dómur Landsréttar, sem staðfesti dóm héraðsdóms um riftunina í fyrra, hafi falið í sér endanlega niðurstöðu um kröfuréttarlegt samband EK1923 og Stjörnunnar og að niðurstaða dómsins sé að viðurkenna kröfuna. Jafnframt er þrotabúinu gert að greiða 500 þúsund í málskostnað.

Stjarnan er rekstraraðili Subway-veitingastaðanna, en EK1923, sem áður var þekkt sem heildverslun Eggerts Kristjánssonar hf., hefur meðal annars verið innkaupsaðili fyrir Subway og var fyrir gjaldþrotið í eigu Skúla. Talsverðar deilur hafa verið uppi eftir gjaldþrotið milli Skúla og skiptastjórans Sveins Andra Sveinssonar, en Sveinn fór annars í nokkur riftunarmál vegna gjaldþrotsins og skaðabótamál gegn Skúla. Í fyrra var öðru félagi Skúla, Sjöstjörnunni, meðal annars gert að greiða EK1923 223 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert