Ásgeir Reykfjörð frá Kviku til Arion

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er nýr aðstoðarbankastjóri Arion banka.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er nýr aðstoðarbankastjóri Arion banka.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason hefur verið ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion banka og hann hefur störf með haustinu. Aðstoðarbankastjóri er ný staða hjá bankanum en nýlega kom fram að Benedikt Gíslason tæki við stöðu bankastjóra.

Ásgeir er lögmaður og hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri fyrirætækjasviðs Kviku banka hf. Nú fara í hönd skipulagsbreytingar á vettvangi Kviku en Ásgeir leitar á ný mið.

Hann átti sæti í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta árið 2015 og áður starfaði hann hjá MP banka sem yfirlögfræðingur, hjá LOGOS lögmannsþjónustu í Reykjavík og London og hjá Straumi fjárfestingarbanka. 

„Það er mikill fengur fyrir okkur í Arion banka að fá Ásgeir til liðs við okkur. Hann býr yfir mjög góðri þekkingu á fjármálastarfsemi og því hvernig auka megi arðsemi í þeirri starfsemi í kjölfar breytts starfsumhverfis banka. Ég er því sannfærður um að hans kraftar eiga eftir að nýtast vel í bankanum og hlakka til samstarfsins,“ er haft eftir Benedikt bankastjóra í tilkynningu.

Ásgeir er bróðir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra.  

mbl.is