Börnin ekki með alvarleg einkenni

E. coli-baktería.
E. coli-baktería. Ljósmynd/National Institute of Allergy and Infectious Diseases

Ekkert þeirra fimm barna sem greindust með sýkingar af völdum E. coli um helgina eru talin sýna alvarleg einkenni en verða undir eftirliti Barnaspítalans, segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í samtali við mbl.is. Áður en þessi fimm voru greind höfði fjögur börn greinst með slíka sýkingu og eru því nú níu sem hafa greinst í heild.

Hann segir niðurstöðu rannsókna á smitvaldi ekki liggja fyrir ennþá og að engin ástæða sé til þess að forðast svæðið þar sem börnin sýktust, en börnin níu eiga það öll sameiginlegt að hafa verið í Bláskógabyggð á síðustu vikum.

Einkenni sýkingarinnar geta verið allt frá því að teljast væg upp í alvarleg. Tvö barnanna af  þeim fjórum sem greindust fyrst voru lögð inn á Barnaspítalann og er annað þeirra enn á spítalanum, að sögn Þórólfs.

„Ekkert barnanna sem greindist nú var með það alvarleg einkenni að þurft hefði að leggja það inn, en þau verða undir eftirliti Barnaspítalans áfram til þess að sjá hvernig fram vindur.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.

Flókin rannsókn

Spurður hvernig rannsókn á smitvaldi miði svarar hann: „Í ljósi þessara nýju tilfella er ekki komin niðurstaða í það mál. Við vitum hvernig þessi baktería smitast og þá eru skoðaðir allir þættir sem geta komið til álita. Þannig að það er vatn, matur og svo framvegis. Það fellur allt undir það sem við erum að skoða.“ 

Engu að síður segir Þórólfur rannsókninni miða vel. „Hún er ágætlega vel á veg komin, en þetta eru ekki auðveldar rannsóknir. Þessi bakteríulógía og að rannsaka þessar bakteríur með ákveðnum aðferðum getur tekið tíma. Þetta er ekkert sem hlaupið er að þar sem  margar tegundir og undirtegundir af E. coli eru til og þetta þarf allt að skoða.“

Engin spá um fleiri sýkingar

Spurður hvort líklegt sé að fleiri greinist með sýkingar af völdum E. coli segir Þórólfur erfitt að spá fyrir um það. „Það veit maður aldrei neitt um, þannig að þetta er bara opin bók. Við reynum að senda út  tilkynningar um einkennin og biðjum þá fólk að leita læknis hafi það verið á þessum svæðum, þá er hægt að greina þetta með ákveðnum aðferðum. Svo verðum við bara að bíða og sjá hvað kemur út úr því.

Engin ástæða er til þess að forðast þetta svæði. Fólk þarf bara að gæta vel hreinlætis og elda vel matinn sinn, eins og á alltaf að gera, sama hvar það býr á landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert