„Málinu er hvergi nærri lokið“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir félagið bíða eftir gögnum …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir félagið bíða eftir gögnum áður en brugðist er við áliti FME. mbl.is/​Hari

VR mun ekki aðhafast vegna álits Fjármálaeftirlitsins (FME) um að stjórnarmenn VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna séu enn stjórnarmenn, eftir að umboð þeirra var afturkallað af fulltrúaráði VR, fyrr en félagið hafi gögn um málið, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.

Hann segir málinu ekki lokið af hálfu félagsins og að fulltrúaráð VR hafi verið í fullum rétti að afturkalla umboð stjórnarmanna.

Í síðustu viku var sagt frá í bréfi FME til stjórnar lífeyrissjóðsins að stofnunin sé „sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn, sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir“.

Þá sagði einnig að það væri í höndum stjórnar VR að afturkalla umboð samkvæmt gildandi samþykktum, ekki fulltrúaráðs.

Ragnar segir ekkert því til fyrirstöðu að stjórn geti verið kölluð saman til þess að veita afturköllun samþykki sitt, hins vegar hafi stjórn framselt vald sitt til fulltrúaráðs eins og lög félagsins heimila. Að auki eiga allir stjórnarmenn sæti í umræddu fulltrúaráði.

„Ekki góð vinnubrögð“

Formaðurinn segir félagið hafa ráðfært sig við lögmenn VR og í kjölfarið kallað eftir öllum gögnum málsins bæði frá Fjármálaeftirlitinu og lífeyrissjóðnum. Beðið hefur verið um afrit af „samskiptum stjórnar lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins sem og meintum úrskurði fjármálaeftirlitsins“.

„Við höfum engin gögn fengið um málið nema það sem við höfum verið að lesa í fjölmiðlum og dapurlegt til þess að hugsa að aðgangur fjölmiðla að úrskurðum og upplýsingum Fjármálaeftirlitsins skuli vera betri heldur en okkar, sem erum lögvarðir aðilar að sjóðnum og erum þeir sem skipum stjórn,“ segir Ragnar Þór.

„Þetta er stofnun sem kennir sig við góða stjórnsýslu og predikar um vandaða stjórnarhætti og fagmennsku, að slík stofnun skuli síðan algjörlega sniðganga annan málsaðilann þykir mér ekki góð vinnubrögð.“

Hann segir næstu skref verða ákveðin þegar umbeðnar upplýsingar og gögn liggja fyrir. „Þessu máli er hvergi nærri lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert