„Beinn ásetningur“ ekki til staðar

Vigfús Ólafsson var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi og stórfellda …
Vigfús Ólafsson var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi og stórfellda brennu. mbl.is/​Hari

Dómari við Héraðsdóm Suðurlands segir ekkert hafa fram komið sem bendi til þess að „beinn ásetningur“ Vigfúsar Ólafssonar hafi verið að bana þeim tveimur manneskjum sem létust í eldsvoðanum í húsi hans á Selfossi 31. október síðastliðinn.

Fimm ára fangelsisdómur var kveðinn upp yfir Vigfúsi fyrr í dag, en dómurinn hefur nú verið birtur opinberlega á vef dómstólsins. Hann var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi og stórfellda brennu.

Í niðurstöðu segir dómari við réttinn að þar sem Vigfús hafði glímt við sjálfsvígshugsanir og hefði áður brennt sig og skorið viljandi, væri „ekki loku fyrir það skotið“ að ásetningur hans hefði einungis verið að „skaða sjálfan sig en ekki aðra sem í húsinu voru.“

„Allt að einu bar ákærða að sjá til þess að ekki gæti kviknað í út frá pappakassa þeim sem sannað verður að telja að hann hafi hent frá sér á gólfið. Þar sem ákærði lét þetta undir  höfuð leggjast leiddi þetta gáleysi ákærða til þess að tvær manneskjur létu lífið í eldsvoða sem hann ber einn ábyrgð á,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands.

Kona, sem ákærð var ásamt Vigfúsi í málinu fyrir að hafa ekki gert það sem í hennar valdi stóð til þess að aðvara fólkið sem var á efri hæð hússins, var sýknuð af ákærunni, en dómari í málinu sagði „ekki hægt að hafna“ framburði hennar um að hún hefði beðið Vigfús um að fara upp á loft og aðvara fólkið.

Vigfús var dæmdur til þess að greiða sjö aðstandendum þeirra látnu samtals 23,2 milljónir króna í miskabætur.

Þá er honum einnig gert að greiða allan sakarkostnað í málinu og málsvarnarlaun verjanda síns, auk þóknun skipaðra réttargæslumanna, samtals tæpar 13 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert