Eldur á stúdentagörðum á Eggertsgötu

Eldurinn kom upp í íbúð á 1. hæð hússins og …
Eldurinn kom upp í íbúð á 1. hæð hússins og var slökktur klukkan hálfsjö. mbl.is/Árni Sæberg

Eldur kom upp á stúdentagörðum við Háskóla Íslands á Eggertsgötu 24. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur nú á vettvangi við reykræstingu. Allt tiltækt lið var sent á vettvang, sagði varðstjóri slökkviliðsins í samtali við mbl.is. Mikinn reyk lagði frá húsinu að sögn sjónarvotta.

„Eldurinn kom upp í íbúð á 1. hæð og var slökktur klukkan 18:30,“ segir varðstjóri slökkviliðsins í samtali við mbl.is. Unnið er að því að reykræsta íbúðina núna. Þangað til að búið er að reykræsta er ekki hægt að segja til um hvar í íbúðinni eldurinn kom upp eða hvers vegna.

Byggingin, sem er stórt fjölbýlishús, var rýmd og allir íbúar beðnir um að yfirgefa íbúðir sínar. Varðstjóri slökkviliðsins segir umfang tjónsins töluvert. Þá barst reykur í aðrar íbúðir og olli einhverjum skemmdum þar.

Samkvæmt heimildum slökkviliðsins var íbúðin mannlaus þegar eldurinn kom upp og ekkert bendir til annars á þessari stundu. Enginn hefur verið fluttur á slysadeild vegna eldsvoðans.

Fréttin var uppfærð klukkan 19:19.

Nálægum götum hefur verið lokað meðan slökkvilið vinnur á vettvangi.
Nálægum götum hefur verið lokað meðan slökkvilið vinnur á vettvangi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is